Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 19:13:14 (2250)

2000-11-27 19:13:14# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tók forskot á sæluna og byrjaði að skamma mig áður en ég hóf mitt fyrsta andsvar. Það er ekki þannig að ég hafi haldið því fram að það ætti að fara strax þá leið að hafna fjárframlögum. Ég sagði að það væri í ýtrustu neyð sem menn ættu að gera það. Ég sagði að það væru þrjár leiðir. Menn ættu í fyrsta lagi, ef farið væri eftir lögunum, hafnað fjárframlögum sem ekki væru af ófyrirséðu tilefni og ýtt þeim yfir á fjárlög, þegar og ef þau bærust til fjárln. Það eiga þau að gera lögum samkvæmt en það gerist aldrei, nánast aldrei. Ég man eftir einu eða tveimur tilvikum.

Í öðru lagi gætum við hafnað ítrekuðum brotum slíkra stofnana þegar beðið er um að koma útgjöldum á fjáraukalög og ef um er að ræða ítrekuð brot, þá sagði ég að menn ættu einfaldlega að fara þá leið að refsa þeim með því að segja nei við bónum varðandi fjárlög.

Herra forseti. Hv. þm. viðurkenndi þó að í þessum fjáraukalögum væri, eins og hann orðaði það sjálfur, lausung upp á nokkur hundruð milljónir. Drottinn minn dýri. Við hv. þm. í stjórnarandstöðunni vorum ekki að segja að allt fjáraukalagafrv. væri lausung. En við vorum búnir að benda á fjölmargt og nú kemur hv. þm. og segir einfaldlega að það sé lausung upp á nokkur hundruð milljónir. Heyr á endemi! Er honum ekki falið að fara eftir lögum? Er hann ekki að lýsa því yfir að hann sé í reynd að brjóta fjárreiðulögin? Ég fæ ekki betur séð.

Herra forseti. Hvern var hv. þm. að skamma þegar hann fór með launarullu sína áðan? Var hann að skamma samtök launamanna? Var hann að skamma atvinnurekendur? Varla getur það verið vegna þess að þessir aðilar gerðu samninga sem hann lofaði og prísaði. Hvern var hann að skamma? Var hann kannski að skamma þá sem ráða fyrir launastefnu ríkisins sem gerðu bakflæðisamningana margfrægu þar sem ekki átti að semja um neitt en það flæddi svona á bak við og þegar upp var staðið voru tilteknir hópar komnir með tugi prósenta. Herra forseti. Eða er hann kannski að skamma Seðlabankann? Hv. þm. verður að svara því. Er hann þeirrar skoðunar að Seðlabankinn sé orsök þeirrar uggvænlegu þróunar sem við horfum nú á í efnahagsmálum?