Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 19:18:32 (2253)

2000-11-27 19:18:32# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[19:18]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Vaxtahágengisárátta Seðlabankans er margra áratuga gömul. Forustumenn atvinnulífs á Íslandi hafa mátt berjast við hágengisstefnu Seðlabankans í marga áratugi. Enginn vafi er í huga mínum að það hefur skaðað íslenskt efnahagslíf verulega og oft mjög mikið að við höfum verið að halda krónunni miklu hærri en markaðsverð hennar gaf til kynna. Það hefur skaðað íslenskt efnahagslíf, skaðað samkeppnishæfni Íslands, skaðað tekjur okkar í langan tíma. Stjórn okkar á genginu er ekki nýtt deilumál. Það á ekkert skylt við þennan forsrh. eða þann sem sat á undan honum eða þar áður, þar áður eða þar áður. Þetta er viðhorf til efnahagsmála sem er eðlilegt að menn deili um á hverjum tíma. Margar stefnur eru uppi og mörg sjónarmið. Enginn einn hefur rétt fyrir sér. Það er mjög eðlilegt að menn deili.

Hins vegar fannst mér lítið til þess koma þegar ráðgjafarnir, sem hafa setið í áratugi í æðstu peningastofnun landsins, hætta svo störfum sem ráðgjafar, koma þá með alveg ný ráð og nýjar skýringar á því hvað hafi gerst. (ÖS: Hvernig veistu það?) Ég hef hlustað á menn tala um þetta. Ég hef heyrn og sjón eins og hver annar. (ÖS: Hvernig veistu nema þeir hafi líka komið með ráðin á meðan þeir unnu þar?) Mér finnst mjög lítið í þær fréttir spunnið að menn sem eru í hæstu trúnaðarstörfum komi síðan eftir að þeir hætta störfum og segi eitthvað allt annað en hefur verið sagt opinberlega. Það er ekkert gagn að því fyrir samfélagið, ekki á nokkurn hátt og við skulum halda áfram að ræða þessi mál. Þau verða deilumál áfram enda orkar það alltaf tvímælis.