Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 19:20:50 (2254)

2000-11-27 19:20:50# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Þessari umræðu er að ljúka. (ÖS: Hver segir að henni sé að ljúka?) Ef henni er ekki að ljúka hafa orð mín samt fullt gildi. Ég þakka fyrir málefnalega umræðu það sem af er. Inntakið í umræðunni hefur verið það að hér er samstaða um að bæta áætlanagerð. Hér er samstaða um aðhald í fjármálum. Hér er samstaða um að fjárlög séu lög og þar séu æðstu stofnanir samfélagsins ekki undanskildar.

Ég tel að okkur hafi skilað áfram að þessu marki. Ég verð að segja það og tek undir með hv. varaformanni fjárln. með það að allflestir forstöðumenn ríkisstofnana standa sig vel í starfi sínu þannig að okkur skilar áfram að þessu marki.

Fram hefur komið að við séum ekki nógu harðir í meiri hluta fjárln. við að hafna beiðnum sem koma um fjárveitingar, t.d. hjá þeim aðilum sem hafa farið fram úr fjárlögum. Þetta getur verið nokkrum vandkvæðum bundið og þá má spyrja hvernig á að meðhöndla slíkt. Ef beiðnum er hafnað hleðst oft upp vandi í þeim stofnunum sem verður fyrr eða síðar að taka á. Sú regla sem við höfum haft í starfi okkar varðandi þetta er sú að ef við tökum þá ákvörðun að gera upp gamla hala eða gera upp vanda, sem hefur ekki verið mætt, er grundvallarskilyrði að rekstrinum hafi verið komið í lag. Það er sú regla sem við verðum að fara eftir og við eigum að hafa aðhald að þessu leyti.

Í umræður um fjárlög og fjáraukalög blandast ætíð almenn efnahagsmálaumræða og ég ætla ekki að lengja þær ágætu umræður sem hafa verið hér um efnahagsmál. Hins vegar finnst mér oft vera talað um verðbólguna eins og það sé eitthvað sem stjórnvöld geti slegið niður í einu höggi. Mér finnst menn oft gleyma því varðandi þróun verðbólgu að viðskiptakjörin sem skapa drjúgan hluta hennar. Olíuhækkunin er okkur mjög þung í skauti að þessu leyti og ytri aðstæður í efnahagsmálum en sem betur fer hefur okkur tekist að sigla þann sjó enn. Ég vona svo sannarlega að svo verði og ráðstafanir okkar í ríkisfjármálum eiga að miða að því marki að halda verðbólguþróuninni í skefjum. Það gerum við með því að hafa afgang af ríkissjóði og nota þann afgang til þess að greiða niður skuldir. Það gerum við m.a. með því að halda aftur af ríkisútgjöldum því það er svo að kröfurnar standa á okkur úr öllum áttum um aukin ríkisútgjöld. Það er alveg rétt sem kom fram að ef dregst saman getur verið erfitt að snúa ofan af. Ég held að það hafi verið 7. þm. Reykv. sem gat þess. Ég hef ekki þreyst á því að tala einmitt um þetta, þ.e. þegar stofnað er til aukinna rekstrarútgjalda þegar vel árar, fram úr hófi, þá getur það komið í bakið á okkur þegar dregst saman. Vonandi tekst okkur að halda þannig á efnahagsmálum og atvinnumálum að tekjur ríkissjóðs haldist og við höfum möguleika áfram til að sækja fram á þeim mikilvægu sviðum sem þau ná til.