Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 19:25:57 (2255)

2000-11-27 19:25:57# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[19:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki í efnislega umræðu við hv. þm. Jón Kristjánsson en þakka honum fyrir málefnaleg svör gagnvart okkur stjórnarandstæðingum í dag. Ég tel að hann hafi misskilið mig að einu leyti. Ég átti orðræður við einn ágætan hv. þm. stjórnarliðsins um það hvaða möguleika þingnefndir á borð við fjárln. hefðu ef um væri að ræða ítrekaða framúrkeyrslu. Ég skildi þann ágæta andmælanda minn með þeim hætti að hann teldi að við ættum engin úrræði. Ég benti á nokkur úrræði. Ég var ekki að hvetja til þess að það væri daglegt brauð að menn höfnuðu fjárlagabeiðnum, síður en svo. En ég benti á að ein leið fælist í því að ef um ítrekaða framúrkeyrslu væri að ræða að hafna einfaldlega viðkomandi bón. Ætli það yrði þá ekki til þess, herra forseti, að viðkomandi fagráðherra tæki viðkomandi yfirmann stofnunar á teppið og segði honum til syndanna og hvað til hans friðar heyrði.

Herra forseti. Ég get tekið undir með ýmsum sem hér hafa talað að mér finnst að þess gæti minna nú en áður að stofnanir keyri nánast blint fram úr fjárlögum eins og tíðkaðist. Það er m.a. vegna aðhalds þingsins, bæði stjórnarliðsins og stjórnarandstöðu. En við þurfum að vinna betur. Við þurfum að aga stofnanir ríkisins en við verðum líka að aga okkur sjálf. Ég held að samstaða sé um það í þessum sölum að mál sem við höfum rætt sem varðar okkur sjálf hlýtur að vera þess eðlis að við verðum að skoða það. Við ræðum þetta ekki aðeins til þess að finna fyrir hrísinu á eigin baki. Við erum að ræða þetta vegna þess að þarna hefur Alþingi ekki staðið sig nægilega vel og við sem sitjum á hinu háa Alþingi verðum að koma í veg fyrir að svona geti endurtekið sig.