Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:31:58 (2257)

2000-11-28 13:31:58# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Verkfall hefur nú lamað framhaldsskóla landsins í þrjár vikur upp á dag og horfir vægast sagt þunglega um lausn deilunnar. Hlé var gert á viðræðum sl. fimmtudag og má segja að litlu hafi munað að hreinlega slitnaði upp úr og það er fyrst nú í eftirmiðdaginn sem boðað er til fundar að nýju. Þrettán hundruð framhaldsskólakennarar og hátt í tuttugu þúsund framhaldsskólanema, fjölskyldur þeirra og fjölmargir aðrir, eru meiri og minni fórnarlömb þessa ástands. Forustumenn kennara hafa í talsvert á annað ár gert stjórnvöldum ljóst í hvað stefndi, kennarar mundu krefjast leiðréttingar launa sinna með hliðsjón af kjaraþróun annarra hópa með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi auk þess að leggja áherslu á framfarir í skólastarfinu.

Tíminn allt frá því að aðilar hófu að tala saman og til dagsins í dag hefur meira og minna farið í súginn. Ríkisstjórnin hefur engan lit eða vilja sýnt í málinu. Talað er við kennara eins og að þeir hafi engan sjálfstæðan samningsrétt, eins og það skipti engu máli að þeir hafi dregist aftur úr öðrum, eins og að það skipti engu máli að flótti er úr stéttinni og framhaldsskólar eru ekki samkeppnishæfir á vinnumarkaði. Það vantar meira fjármagn til framhaldsskólans eins og raunar almennt til menntamála og rannsókna hér á landi.

Útspil af því tagi sem komið hafa frá ríkisstjórninni í deilunni, að kennarar skuli sækja kjarabætur í eigin vasa, að kennsluskylda skuli aukin o.s.frv., eru ekki til þess fallin að leysa þessa deilu. Ekki er þar hlutur hæstv. menntmrh. bestur. Hann hendir sprengjum, m.a. á heimasíðu sinni og verður í þessu sambandi helst líkt við slökkviliðsmann sem hlypi um og reyndi að slökkva logandi elda með bensíni. Þannig sakar hæstv. menntmrh. framhaldsskólakennara m.a. um það á heimasíðu sinni sl. laugardag að vilja grafa undan efnahagslífi þjóðarinnar. Ráðherra vísar því með öllu frá sér að koma að því að leysa deiluna. Það er borin von, segir hæstv. ráðherra. Ráðherra segir að sjaldan hafi forustumenn kennara komist í jafnmiklar ógöngur. Loks segir ráðherra, og kannski er það svakalegast, með leyfi forseta:

,,... er það eitt ekki minna áhyggjuefni en verkfallið sjálft, þar sem andúð á málstað, málflutningi og baráttuaðferðum forustumanna kennara varpar skugga á viðhorf almennings til skólastarfs.``

Herra forseti. Þetta er með hreinum ólíkindum. Ég minnist þess tæpast í annan tíma að ráðherra eins málaflokks gangi fram í viðkvæmri deilu með því sem ég neyðist til að kalla jafnmiklum nautshætti og raun ber hér vitni. Hæstv. menntmrh. skellir allri skuldinni á kennara og ber þá þungum sökum um leið og hann hvítþvær sjálfan sig.

Herra forseti. Ástandið sem þessi deila er að skapa er mjög alvarlegt. Ég krefst þess, bæði sem stjórnmálamaður og foreldri, að ríkisstjórnin taki skyldur sínar alvarlega, axli ábyrgð og reyni í alvöru að leysa deiluna. Ekki síst er ábyrgð hæstv. menntmrh. mikil.

Ég hef því leyft mér að beina þessari umræðu til hans sem menntamálaráðherra þjóðarinnar, síðast þegar vitað var, og bera upp við hann nokkrar spurningar um leið og ég fagna viðveru hæstv. fjmrh.

Spurningar mínar til hæstv. menntmrh. eru þessar, herra forseti:

1. Væri enn þá unnt að bjarga haustönninni ef deilan leystist á allra næstu dögum?

2. Hver eru viðbrögð menntmrh. við upplýsingum um að framhaldsskólakennarar séu unnvörpum að hverfa til annarra starfa eða a.m.k. að leita sér að öðrum störfum? Hvernig hyggst hæstv. menntmrh. halda uppi framhaldsskólastarfi í landinu án kennara?

3. Er unnið að áætlun um það í menntmrh. hvernig brugðist verði við því ef deilan dregst enn á langinn og þetta skólaár í heild sinni fer í súginn?

4. Sér hæstv. menntmrh. einhverjar leiðir til að liðka fyrir lausn deilunnar af sinni hálfu? Þá er, herra forseti, augljóslega verið að spyrja um aðra hluti en þá sem hæstv. menntmrh. hefur fyrst og fremst sýnt af sér hingað til.