Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:43:43 (2260)

2000-11-28 13:43:43# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Verkfall framhaldsskólakennara er óþolandi ástand. Verkfallið bitnar á alröngum aðilum. Margar vinnufúsar hendur eru aðgerðarlausar í augnablikinu, ekki einungis hendur kennaranna sem auðvitað hafa ekki efni á því að vera í verkfalli heldur líka hendur tuttugu þúsund ungmenna. Og það sem alvarlegast er í þessu er að þetta bitnar mjög gjarnan á þeim ungmennum sem verst standa í þjóðfélaginu.

Áhrifin eru svo sannarlega keðjuverkandi. Verði veturinn eða önnin ónýt bendir allt til þess að næsta haust hefji allt of margir nemendur framhaldsskólanám, þ.e. þeir nemendur sem útskrifuðust úr 10. bekk á síðasta skólaári og þurfa hugsanlega að hefja nám á nýjan leik, auk þeirra nemenda sem útskrifast á næsta ári. Því er mjög hætt við að örtröð myndist næsta haust í framhaldsskólunum.

Störf kennara eru auðvitað mjög mikilvæg og ég tel að í framtíðinni --- það er ekki hægt að koma því á núna --- eigi kjaramál stétta eins og kennara og lögreglumanna hreinlega að fara fyrir Kjaradóm vegna þess að verkföll sem þessi bitna á alröngum aðilum. Þess vegna hvet ég kennara og samninganefnd ríkisins til að slíðra sverðin og kappkosta að semja í þessari slæmu deilu sem allra fyrst.