Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:51:07 (2264)

2000-11-28 13:51:07# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Staðan í kjaradeilu kennara við ríkið er ömurleg. Hún er ömurleg fyrir nemendur sem horfa á önnina tapast og sumir hafa þegar horfið frá námi. Hún er ömurleg fyrir kennara sem héldu að hin almenna stefna ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar á Alþingi væri fyrir þá eins og aðra. Hún er ömurleg fyrir foreldra sem óttast um framtíð barna sinna ef þau flosna frá námi. Við þessar aðstæður kemur hæstv. menntmrh. þeim skilaboðum á framfæri á heimasíðu sinni að hann ætli sér hvorki að kannast við ástæður deilunnar né að axla ábyrgð á lausn hennar, það eigi hins vegar ýmsir aðrir að gera. Til að fullkomna ástandið eru frýjuorðin hvergi spöruð. En lögin eru alveg skýr þegar kemur að ábyrgð. Menntmrh. fer með yfirstjórn framhaldsskólans, hann ber ábyrgð á skólahaldinu og hann gerir tillögur um fjárveitingu til hvers skóla. Hann ber ábyrgð á þeim efnahagslegu staðreyndum sem framhaldskólinn býr við, að framhaldsskólinn er svo fjársveltur að hann hefur ekki getað verið skóli fyrir alla, ekki getað tekist á við geigvænlegt brottfall og ekki getað menntað það fólk sem atvinnulífið kallar eftir.

Það hefur komið fram að vöntun á fólki með þá menntun sem framhaldsskólarnir eiga að veita sé ein ástæða þess að við búum við minni framleiðni en áður. Það er hin efnahagslega staðreynd. En menntmrh. vísar ábyrgðinni á því að sjálfsögðu frá sér líka, það sé atvinnulífinu að kenna að það fær ekki nægt menntafólk.

Herra forseti. Menntmrh. hefur leyft góðærinu að renna fram hjá framhaldsskólunum og kennurum þeirra. Þess vegna eru skólarnir lamaðir vegna verkfalla.

Herra forseti. Nú er mál að linni og að réttir aðilar axli sína ábyrgð.

(Forseti (GuðjG): Forseti vill minna á að það er venja hér á Alþingi að ávarpa hæstv. ráðherra og hv. þm.)