Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:53:26 (2265)

2000-11-28 13:53:26# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Verkfall framhaldsskólakennara hefur þegar staðið svo lengi að hætt er við því að önnin sé með öllu ónýt fyrir nemendur. Aðstaða nemenda er mjög misjöfn vegna námshæfni og félagslegrar stöðu nemenda. Sömuleiðis hefur búseta framhaldsskólanemenda mikið að segja.

Staðan er þessi: Þeir nemendur sem verst eru settir hafa þegar gefið námið upp á bátinn, sumir fram á næstu önn eða fram á næsta vetur en því miður munu einhverjir hætta í námi á framhaldsskólastiginu eða flosna algjörlega úr náminu. Þetta er óviðunandi staða þar sem ljóst er hversu mikilvægt er að styðja alla til náms, sérstaklega í þjóðfélagi eins og okkar sem tekur þátt í alþjóðavæddri tæknibyltingu og hefur sett sér metnaðarfull markmið í menntun þjóðarinnar.

Þeir nemendur sem vel eru settir í námi og hafa góðan stuðning heima fyrir halda sig við heimanám að einhverju leyti. En eftir þrjár vikur í sjálfsnámi minnkar lestur námsbóka, verkfallið hefur því einnig lamandi áhrif á úrvalsnámsmenn jafnt sem aðra.

Hér á höfuðborgarsvæðinu og þeim stöðum sem einhverja vinnu er að fá eru margir nemendur komnir í fulla vinnu. Það er ólíklegt að þeir hefji allir nám á þessari önn þó að verkfallið mundi leysast á næstu dögum. Margir nemendur hafa að engu að hverfa, mæla göturnar og líðan flestra er slæm.

Kennarar þurfa leiðréttingu á launum og kjörum sem laða hæfileikaríka einstaklinga til kennslu á framhaldsskólastigi. Þetta er krefjandi starf og ljóst að margir kennara huga á breytingar og önnur störf ef verkfallið dregst á langinn eða væntanlegur samningur verður að þeirra mati ekki ásættanlegur.

Herra forseti. Nám á framhaldsskólastigi verður ekki leyst með einkareknum skóla. Gott nám á að fara fram í öllum skólum landsins en til þess þarf aukið fjármagn í málaflokkinn. Það er trúlega engin tilviljun að hugmyndir um einkarekinn skóla hafa komið fram núna.