Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:59:31 (2268)

2000-11-28 13:59:31# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður. Þær undirstrika mikilvægi þess að finna lausn á þessari deilu. Eins og ég sagði er það mat menntmrn. að ef verkfall framhaldsskólakennara leysist í þessari viku þannig að kennsla geti hafist í byrjun næstu viku þá ætti að vera unnt að ljúka þeirri önn sem nú stendur í raun yfir á framhaldsskólastiginu.

Hér hafa komið fram spurningar varðandi endurgreiðslu á skólagjöldum og aðra slíka þætti. Ég ætla ekki að fara að lesa svör menntmrn. um þessa þætti en vil vekja athygli á því að ráðuneytið hefur upplýst forráðamenn framhaldsskólanemenda um réttarstöðu þeirra varðandi þennan þátt í verkfallinu. Það er að sjálfsögðu mikilvægt mál fyrir marga nemendur eins og hér hefur verið áréttað.

Ég vil aðeins segja að þau orð sem ég hef látið falla um þetta mál eru á engan hátt þannig að þau eigi að koma nokkrum manni á óvart. Þær skoðanir sem ég hef lýst varðandi stöðu mína og hlutverk menntmrh. í þessu máli á ekki að koma nokkrum hv. þm. á óvart. Við höfum öll okkar hlutverki að gegna. Við berum öll okkar ábyrgð. Ég hef aldrei skorast undan ábyrgð í störfum mínum og skorast heldur ekki undan þeirri ábyrgð að lýsa skoðun minni þegar mér finnst það nauðsynlegt til að mál séu skoðuð frá þeim sjónarhóli sem ég tel vænlegast, ætli menn að leysa mál eða komast að skynsamlegri niðurstöðu. Ég mun halda áfram að gera það, hvað sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir.