Skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:01:48 (2269)

2000-11-28 14:01:48# 126. lþ. 33.91 fundur 143#B skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á fundi efh.- og viðskn. í gærkveldi var afgreiðsla á skattaaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem tengjast fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga knúin fram af meiri hlutanum gegn vilja minni hlutans. Sú afgreiðsla og yfirgangur meiri hlutans er óskiljanlegur í ljósi þess að fram kom hjá fulltrúum ASÍ að skattahækkun sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir grefur undan forsendum kjarasamninga og étur upp umsamdar kauphækkanir.

Hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar verða að skilja að kjarasamningar eru í hættu enda kemur fram í umsögn ASÍ að verði ekki gripið til annarra ráðstafana er einnig ljóst að ríkisstjórnin mun ganga á bak orða sinna um þróun skattleysismarka sem voru gefin í yfirlýsingu hennar 10. mars sl. í tengslum við kjarasamninga.

Heildarsamtök launafólks, ASÍ og BSRB, hafa í dag harðlega mótmælt þessum áformum. Ljóst er að þau munu stefna kjarasamningum í algert uppnám eða eins og varaformaður ASÍ orðaði það á fundi efh.- og viðskn. í gærkvöldi: Forsendur kjarasamninga eru á mörkum þess að bresta.

Það var þess vegna sem minni hluti efh.- og viðskn. óskaði eftir því í gær, í ljósi nýrra upplýsinga og þess að við vorum að skoða málið í samhengi við kjarasamninga, að nefndin fengi meira svigrúm til að fjalla um málið og óskuðum við eftir fundi um málið t.d. á þessum degi. Þeirri sanngjörnu kröfu var hafnað og því mótmæli ég fyrir hönd minni hlutans úr þessum ræðustól. Um leið óska ég eftir því að meiri hlutinn virði þá sanngjörnu ósk minni hlutans og reyni að ná sáttum í málinu, reyni að ná niðurstöðum sem tryggi að raungildi skattleysismarka haldi á næstu árum og forði því að kjarasamningar lendi í þeirri stöðu sem blasir nú við. Það er það sem ósk okkar gengur út á, að skoða málið í því samhengi.