Skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:07:22 (2272)

2000-11-28 14:07:22# 126. lþ. 33.91 fundur 143#B skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er orðið frekar óþægilegt að heyra hvað stjórnarliðunum finnst það mikið vesen þegar þingmenn vilja vinna störfin vel og þegar óskir eru um að halda þannig á málum hvort heldur er í þessu sal eða nefndum að til sóma sé. Hér komu fram hógværar óskir um viðbótarfund eftir nýjar upplýsingar frá ASÍ um að þær aðgerðir, sem við erum að fara að lögfesta samkvæmt frv. sem verða tekin til afgreiðslu í dag og næstu daga, hafi þau áhrif að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá kjarasamningunum gengur ekki eftir, að skattleysismörk hækki ekki í takt við laun. Við óskuðum eftir því að fá fund í morgun til að skoða þessi mál nánar eða í hádeginu í dag. Það var alls ekki hægt að verða við því, herra forseti, og málið var rifið út af því stjórnarmeirihlutinn ákvað að málið ætti að fara út.

Þetta er það sem blasir við. Stjórnarmeirihlutinn er upptekinn af valdi sínu og meiri hluta. Hann ákveður. Það er óþægilegt og vesen ef stjórnarandstaðan vill hafa fagleg vinnubrögð. Við töldum brýnt að vita hvernig áhrif þetta frv. hefði á ákveðna hópa og því hefðum við öll átt að hafa áhuga á.

Herra forseti. Við höfum lýst því yfir á fundi forseta og í nefndinni að við ætlum ekki að tefja afgreiðslu málsins. Það er ekki af okkar sökum að málið er ekki á dagskrá í dag og er þar með e.t.v. komið fram yfir helgi þegar það verður rætt. Hins vegar er sú staðreynd að málið er ekki á dagskrá í dag undirstrikun á því að það var einfaldasta mál í heimi að halda aukafund, t.d. í hádeginu.

Herra forseti. Það er allt annað að taka mál aftur fyrir milli 2. og 3. umr. en að leita allra upplýsinga sem óskað er meðan málið er til afgreiðslu í nefnd fyrir 2. umr.