Skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:11:35 (2274)

2000-11-28 14:11:35# 126. lþ. 33.91 fundur 143#B skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Um hvað snýst málið? Þetta snýst um það að efh.- og viðskn. hafði lokið formlegri yfirferð sinni um frv. fyrir síðustu helgi. Þá óskaði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir eftir því að málið yrði ekki afgreitt út úr nefndinni. Og af hvaða ástæðum? Af þeirri ástæðu að hún taldi eðlilegt að bera málið undir þingflokkana. Það var mjög eðlileg ósk og við henni varð að sjálfsögðu orðið. Þá var hins vegar hinni efnislegu umfjöllun málsins lokið enda höfðu þá dögum saman legið fyrir nefndinni gögn, þar á meðal frá Alþýðusambandi Íslands, hin formlega umsögn um málið hafði legið fyrir frá Alþýðusambandi Íslands dögum saman.

Hvað kemur fram í umsögninni? M.a. það að forsendan fyrir því að hægt sé að taka afstöðu til annars málsins sé að vita niðurstöðu hins. Við lögðum á það áherslu núna vegna þess að það liggur á að ljúka málinu af ástæðum sem öllum er kunnugt. Við lögðum á það áherslu að hægt væri að sjá fyrir hina efnislegu niðurstöðu úr báðum nefndum, félmn. og efh.- og viðskn., þegar umræðan færi fram. Þess vegna var mjög mikilvægt að hægt væri að ljúka málinu í gær enda var efnislegri umfjöllun málsins þá lokið.

Síðan kom fram í máli hv. formanns efh.- og viðskn. að hann taldi eðlilegt að verða við þeirri ósk að taka málið fyrir milli 2. og 3. umr. og gefa þannig tækifæri til að fara frekar yfir málið.

Að sjálfsögðu er hægt að kalla endalaust eftir umsögnum. Að sjálfsögðu er hægt að kalla endalaust eftir tölulegum upplýsingum. Það er eðlilegt að gera það með því að vinna málin eins vel og hægt er.

Auðvitað verður einhvern tímann að ljúka málinu og þegar efnislegri umfjöllun var lokið fyrir 2. umr. málsins var eðlilegt að taka það út úr nefndinni alveg eins og gert var í gærkvöldi.