Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:18:50 (2279)

2000-11-28 14:18:50# 126. lþ. 33.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Allmargir þeirra útgjaldaliða sem hér er verið að greiða atkvæði um eru stuðningur við góð málefni og í sumum tilfellum af brýnni þörf. Má þar nefna Barnaverndarstofu, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna fólksfækkunarframlaga og framlög til lyfjakostnaðar sjúklinga, svo eitthvað sé nefnt. Aðrir liðir sem hér er verið að greiða atkvæði um orka mun meira tvímælis hvort eigi heima í fjáraukalögum og má þar nefna æðstu stjórn ríkisins og stjórn ráðuneytanna.

Framkvæmd fjárlaga er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar og fjáraukalögin sem koma nú til atkvæðagreiðslu eru áréttingar á vanköntum fjárlaganna. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lýsum allri ábyrgð á hendur meiri hlutans við afgreiðslu á þessum fjáraukalögum og munum sitja hjá við afgreiðslu þeirra.