Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:27:19 (2284)

2000-11-28 15:27:19# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Árni Gunnarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hafandi hlustað á málflutning stjórnarandstöðunnar í dag er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvað stjórnarandstaðan vill í raun og veru. Hér koma menn upp í umræðum um tekjuskatt og eignarskatt og býsnast yfir skattahækkunum, skattahækkunum sem felast í heimildum til sveitarfélaganna til þess að auka tekjur sínar þurfi þau á því að halda. Hér koma menn síðan upp í umræðum um tekjustofna sveitarfélaga og býsnast yfir því að nú sé ekki nóg að gert, sveitarfélögin hafi þurft meiri hækkanir. Ef ekki á að láta þær hækkanir bitna á skattgreiðendum þá hefðu menn þurft að leggja það til að ríkið gæfi meira eftir af sínum tekjum. En það gera þeir ekki einu sinni, hæstv. fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárln. Þeir koma hér upp og kvarta yfir því að aðhald sé ekki nóg í ríkisfjármálum. Mig langar því að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Hvað af þessu vilja menn raunverulega? Það þýðir ekki að bera það á borð að menn tali fyrir hönd stjórnarandstöðunnar í einni nefnd um að menn vilji lækka skatta, í annarri nefnd um að menn vilji hækka skatta og í þriðju nefndinni að menn vilji auka tekjuafgang ríkissjóðs. Þetta kemur ekki heim og saman.