Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:32:38 (2287)

2000-11-28 15:32:38# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. Menn eiga auðvitað að reyna að vera ábyrgir fyrir orðum sínum og sjálfum sér samkvæmir í málflutningi og það tel ég að ég hafi verið. Talandi um myndlíkingar þá er alveg rétt að það gat verið vangæft að skipta gamla rússanum GAZ 69. Gírkassinn var ekki fyllilega það sem kallað er samhæfður eða ,,synkróníseraður`` eins og ég held að hafi verið slett (Gripið fram í.) en það háði ræðumanni ekki mikið því ég lærði að keyra enn þá vandasamara ökutæki í æsku minni. Ég lærði á Ford vörubíl 42-módel og honum var gjörsamlega ómögulegt að skipta nema að slá á og tvíkúpla, eiginlega á milli allra gíra, þannig að það þjálfaðist upp mikil leikni í því. Ég er alveg tilbúinn að fara í keppni (Gripið fram í.) við hv. þm. um það hvernig er vænlegast að skipta slíkum ökutækjum.

Ég held að ef hv. þm. færi í gegnum a.m.k. málflutning þess sem hér talar og þeirra sem ég er í liði með, hvað sem öðrum líður, þá muni hv. þm. ekki hafa mikið upp úr krafsinu í þeim efnum að sanna að við séum ekki sjálfum okkur samkvæm svona í aðalatriðum hvað varðar álagningu skatta og ráðstöfun fjármuna til velferðarmála. Ég minni á að hér stóðum við og gagnrýndum flatar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Við töldum þær óskynsamlegar og bentum á þörfina fyrir þá fjármuni í velferðarkerfið og til sveitarfélaganna. Hefur ekki komið á daginn að það var heldur álappaleg ráðstöfun í miðri þenslunni að slaka út fjármunum og fella niður tolla af lúxusvarningi, samanber fleiri slíkar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar þá? Það er fullkomið samræmi í því og að gagnrýna nú að allt of seint og í of litlum mæli er komið með nauðsynlegum hætti til móts við fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Ég lít á fjárhagsvanda sveitarfélaganna sem vaxandi mikilvægan þátt í því að reka velferðarkerfið á Íslandi og umgengst hann sem slíkan.