Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:37:19 (2289)

2000-11-28 15:37:19# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er mismunandi mikið gert með Samband ísl. sveitarfélaga. Stundum hentar að skjóta sér á bak við það að þar á bæ séu menn alveg andvígir einhverju en svo er ekki mikið hlustað á þá í öðrum tilvikum. Það er eftir því hvað mönnum hentar sjálfum, greinilega, í hverju tilviki, hvort þeir eigi að ráða niðurstöðu um mál eða ekki.

Ég ætla ekki að halda neinu öðru fram en að vinnan í félmn. hafi verið ágæt innan þeirra marka sem til hennar voru sköpuð. Ég tek alveg undir það að reynt var samkvæmt bestu getu að komast yfir þetta mál á þeim afar skamma tíma sem var til stefnu. En maður getur stillt upp þessu tvennu. Annars vegar er tekjustofnanefndin í eina 15 mánuði eða hvað það nú var, 18 mánuði með málið í sínum höndum. Hins vegar fær félmn. Alþingis í besta falli tíu daga eða hálfan mánuð. Er það svona sem mönnum finnst eðlilegt að þetta sé? Er ekki ansi langt gengið í því að viðurkenna í verki, beygja sig undir að umfjöllun fagnefndar þingsins sé bara formsatriði? Úr því að málið er svona flókið og erfitt og þetta er svona gríðarlegur pakki sem menn eru að skoða að það þarf talsvert á annað ár í hinni stjórnskipuðu nefnd, er þá ekki dálítið lítið að félmn. þingsins skuli fá þennan tíma til faglegrar og sjálfstæðrar umfjöllunar um málið ef slík nefnd á að standa undir nafni? Ef þetta er bara formsatriði þá dygði hálfur dagur í sjálfu sér.

En við viljum halda í þá von og trú í lengstu lög að þetta sé eitthvað meira. Þess vegna er maður að nudda þetta þannig að menn gleymi því ekki að þetta er ekki bara einhver afgreiðslustofnun, ekki einhver stimpill. Umfjöllun þingnefnda á að vera annað og meira en einhver færibandaafgreiðsla á hlutum sem eru jafnvel það stórir og viðamiklir að vösk nefnd hinna bestu manna var í eitt og hálft ár að komast að niðurstöðu í málinu.