Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:44:14 (2292)

2000-11-28 15:44:14# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifaði ekki undir álit meiri hluta hv. félmn. í þessu máli af eftirfarandi ástæðum. Meginefni þessa frv. er rýmkun á heimildum sveitarfélaga til að ákveða útsvar. Neðri mörkum er haldið en efri mörkin eru hækkuð í áföngum, fyrsta árið um 0,66% og seinna árið um 0,33%. Þetta þótti mér gott. Ég vil stuðla að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna.

Svo las ég eftirfarandi fskj. II í greinargerð með frv., með leyfi herra forseta:

[15:45]

,,Haldi sveitarfélög útsvarshlutföllum sínum óbreyttum munu heildaráhrif skattalagabreytinganna leiða til 2.350 millj. kr. minni heildarskattbyrði. Nýti sveitarfélögin sér á hinn bóginn þessar auknu heimildir að fullu mun heildarskattbyrðin aukast um 1.400 millj. kr. Í ljósi mismunandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga er ekki búist við að sveitarfélög nýti sér að fullu þær auknu heimildir til útsvarsálagningar sem hér eru lagðar til og því gert ráð fyrir óverulegri aukningu á skattbyrði.``

Herra forseti. Þetta er forsenda málsins og forsenda þess að ég stóð að því í þingflokknum að þetta færi í gegn, að þetta mundi valda óverulegri aukningu á skattbyrði. (Gripið fram í.) Síðan komu fyrir hv. félmn. eftirfarandi umsagnir. Ég ætla að byrja á Reykjavík, sem er stærsta sveitarfélag landsins og hefur afgerandi áhrif á meðalútsvarið í landinu og þar með staðgreiðslu ársins. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Það var mat fulltrúa sveitarfélaganna í hinni svokölluðu tekjustofnanefnd að tekjuþörf sveitarfélaganna vegna aukinna verkefna og ákvarðana ríkisvaldsins í skattamálum væri um 6--7 milljarðar á ári. Þrátt fyrir að þessi leiðrétting á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafi ekki náðst fram telur borgarráð engu að síður að nefndin hafi náð mikilvægum áfanga varðandi endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga sem mun skila sveitarfélögunum í landinu 2.500 millj. kr. tekjuauka á næsta ári og 3.750 millj. kr. á árinu 2002 komi tillögur hennar að fullu til framkvæmda.`` --- Og nú er verið að leggja til að þær komi að fullu til framkvæmda. Hér er því gert ráð fyrir að lagt sé á hámarksútsvar í landinu. Síðan segir, með leyfi forseta: --- ,,Engu að síður hlýtur borgarráð að gera alvarlegar athugasemdir við að samfara auknum heimildum sveitarfélaga til að hækka útsvar um 0,99% á næstu tveimur árum skuli ríkið ekki hafa áform um að lækka tekjuskattinn nema um 0,33% á næsta ári eða sem nemur 1.250 millj. kr. Tillögurnar munu því hafa í för með sér almenna skattahækkun sem mun bitna harðast á íbúum höfuðborgarsvæðisins.``

Þetta er nú allur sjálfsákvörðunarrétturinn. Þetta er nú hvernig sveitarfélögin, a.m.k. Reykjavíkurborg, ætla að fara með þessa nýju heimild til að láta útsvarið vera á bilinu 11,2% og upp í 13,0% eða rétt rúmlega það. Hún ætlar sem sagt að fara í hámarkið alveg burt séð frá því hvernig skattgreiðendum, borgurunum, líður.

Svo segir í umsögn Kópavogsbæjar, með leyfi forseta:

,,Bæjarstjórn Kópavogs skorar á Alþingi að afgreiða breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nú á haustþingi án þess að það hafi í för með sér almennar skattahækkanir á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það verður best gert með því að lækka tekjuskattsprósentuna jafnt og nemur hækkun á útsvarsprósentunni.`` --- Þeir tala ekki lengur um heimild. Nei, það skal vera útsvarsprósentan sem á að hækka. Þeir reikna bara með því að fara í hámarkið og ríkið eigi að lækka tekjuskattsprósentuna þannig að það sé í rauninni ríkið sem borgi hallarekstur og ákvarðanir sveitarfélaganna. Sveitarfélög eru sem sagt að lýsa því yfir að þau hafi ekkert sjálfsákvörðunarvald og vilji ekki hafa það.

Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar segir, með leyfi forseta:

,,Hafnarfjarðarbær mun að sjálfsögðu nýta sér heimild til hækkunar útsvarsprósentu frá næstu áramótum. Annað væri óábyrgt í ljósi þeirra miklu og nauðsynlegu framkvæmda sem bæjarfélagið stendur að. Það er hins vegar ljóst að áðurnefnd hækkun útsvarsins nægir engan veginn til að mæta þeim áhrifum sem ný lög og reglugerðir hafa rýrt fjárhag bæjarfélagsins á síðustu árum.`` --- Mér heyrist á þessu að það sé nánast sama hvert hámarkið yrði. Þau færu alltaf í botn vegna hinna ,,miklu og nauðsynlegu framkvæmda``. Ég get alveg ímyndað mér að þau geti bara framkvæmt þangað til útsvarið er komið upp í 100% af tekjum íbúa sveitarfélagsins. Enn fremur segir í umsögn Hafnarfjarðarbæjar: --- ,,Auknar hækkunarheimildir í útsvari til handa sveitarfélögunum mæta að hluta til þessum tekjuvanda sveitarsjóðanna. Hins vegar er óviðunandi að þessari sannanlegu tekjuþörf sveitarfélaga sé mætt með auknum álögum á íbúa sveitarfélaganna. Þess vegna er mikilvægt að tekjuskattur ríkisins lækki til jafns við hækkun útsvars.`` --- Þeir tala aftur um hækkun útsvars, ekki útsvarsheimildar. Mér sýnist að sveitarfélögin séu almennt að afsala sér þessu fræga sjálfsákvörðunarvaldi sem allir eru að vitna til.

Í umsögn Eyþings -- Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi bættrar stöðu ríkissjóðs lýsir stjórn Eyþings yfir óánægju með að ríkissjóði skuli ekki gert að lækka tekjuskattprósentuna til jafns við auknar heimildir til álagningar útsvars.`` --- Þarna tala þeir reyndar um heimildir. --- ,,Með útsvarshækkuninni`` --- nú tala þeir um útsvarshækkun --- ,,er enn verið að auka álögur á launafólk, sem er sá hópur í þjóðfélaginu sem auðveldast er að ná til, og ber nú þegar þungann af beinum sköttum.`` --- Þeir ætla sér sem sagt í hámark þó að það sé voðalega sárt fyrir launþegana.

Að mínu mati segja þessar umsagnir fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins að menn ætla sér að hækka útsvarið upp í hámark, ekkert tal um lágmarksútsvar eða hámarksútsvar heldur að allir muni vera í hámarki. Þetta er því greinilega skattahækkun og ég gat ekki skrifað upp á það að fengnum þessum upplýsingum í félmn. Ég bendi jafnframt á að á höfuðborgarsvæðinu hafa tekjur sveitarfélaganna af fasteignagjaldi hækkað ótæpilega á undanförnum árum með hækkun fasteigna án þess að hagur skattgreiðendanna eða borgaranna hafi batnað neitt umtalsvert. Þegar ég bý í íbúð minni og er ekkert að selja hana þá breytist ekkert hjá mér annað en að fasteignagjaldið hækkar. Það má vel vera að vegna þess arna, vegna þessarar miklu græðgi sveitarfélaganna, mundi ég kalla það, sé svo komið að þrátt fyrir mikla hækkun launa sé sumt fólk, sérstaklega lágtekjufólk, verr sett en áður vegna hækkunar fasteignagjaldanna. Það eru þá kannski aðallega ellilífeyrisþegar sem ég sé fyrir mér þar.

Herra forseti. Vandamálið í sveitarfélögunum við ákvörðun útsvars er að útsvarið er dulinn skattur, skattgreiðandinn sér ekki skattinn, hann sér einungis staðgreiðslu. Flestir eru að hugsa um annað en skattamál alla daga og þekkja kannski ekki málin mjög greinilega. Þeir ímynda sér að staðgreiðslan sé skattur til ríkisins og búið. Menn átta sig ekkert á því að sveitarfélögin eru að ákvarða rjómann af skattinum vegna þess að svo mikið er af frádráttarliðum, persónufrádráttur og slíkt, til tekjuskattsins og ríkið greiðir auk þess útsvar fyrir þá sem eru undir frítekjumarki en útsvarið er flatur skattur eins og kunnugt er.

Við stöndum því frammi fyrir því að skattgreiðandinn, borgarinn, gerir kröfu um aukna félagslega þjónustu, íþróttahús, barnaheimili, elliheimili o.s.frv. en hann áttar sig ekki á því hver greiðir vegna þess að það er dulið í staðgreiðslunni sem borgarinn heldur að sé skattur til ríkisins. Og alveg sérstaklega gerist þetta ef sveitarfélögin eru öll með jafnháa skattprósentu. Ef þau eru með mismunandi skattprósentu þá kemur í ljós hjá sumum sveitarfélögum að menn fá endurgreitt á haustin og hjá öðrum þurfa þeir að bæta við þegar þeir eru búnir að borga meðalútsvarsprósentu með staðgreiðslunni. Þá kemur í ljós að það er sveitarfélagið sem er að leggja skattinn á, en ef sveitarfélögin hafa samráð um að fara öll í hámarkið er staðgreiðslan sama og hámarkið. Meðaltalsútsvar verður þá sama og hámarkið þannig að ekki verður um neinar endurgreiðslur eða bakreikninga að ræða að hausti. Þess vegna gerist það að sífellt auknar kröfur eru um félagslega þjónustu sveitarfélaganna og enginn áttar sig á hver borgar.

Herra forseti. Ég hef margoft rætt um hlutverk Alþingis. Hér er komið inn á borð hjá okkur samkomulagsmál sem einhverjir aðilar úti í bæ hafa verið að gera um skiptingu á skatttekjum. Alþingi er ekkert ætlað, herra forseti, að gera neinar breytingar á þessu. Ég skil ekki hvað hv. þingnefnd er yfirleitt að ræða um þessi mál og hvað hv. Alþingi er yfirleitt að ræða um þessi mál. Það er ekki meiningin að gera neinar breytingar og þær breytingar sem gerðar eru eru litlar og óverulegar og varða einhverja hnökra á framkvæmd sem hafa komið í ljós við nánari skoðun. Ég hef margoft bent á þetta og hef kallað valdaafsal Alþingis sem er mjög hættulegt, því ekki er endilega víst að þeir hagsmunaaðilar sem eru að véla um slík mál úti í bæ hafi endilega hagsmuni borgaranna að leiðarljósi sem við hv. þm. erum kosnir af. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að fara nýjar leiðir í málinu til að finna lausn á þessu. Það væri t.d. að gera útsvarið greinilegra fyrir skattborgarana, að gera það að flötum skatti og jafnvel að kosið yrði um útsvarið einu sinni á ári, þ.e. að skattgreiðendur eða íbúar í sveitarfélaginu fengju val um það að hausti að hafa tvenns konar útsvar og yrði að vera a.m.k. 0,5% munur á því og þeir gætu valið hvort þeir vildu hátt útsvar, miklar framkvæmdir og góða þjónustu eða lægra útsvar, minni framkvæmdir og minni þjónustu. Þá kæmi í ljós hvort menn vildu yfirleitt hafa svona háa skatta.

Það er eitt atriði, herra forseti, sem ég vildi einnig koma aðeins inn á og það er 1.100 millj. framlag ríkissjóðs vegna breytts fasteignamats. Þarna er verið að lækka fasteignamat úti á landi og menn hafa komið auga á að það þýðir að tekjur sveitarfélaganna úti á landi, sem mega ekki við því, lækka um 1.100 millj. og ríkissjóður greiðir það. En ég spyr: Hvað gerðist 1989 þegar viðmiðunin var hækkuð? Borguðu sveitarfélögin þá til ríkisins? Nei, þá notuðu þau tekjurnar ótæpilega til þess að fara út í enn frekari framkvæmdir, sundlaugar, íþróttahús o.s.frv., og notuðu tekjurnar sem þau fengu frá borgurunum sem þau eru nú að fá bættar frá ríkinu. Þetta gengur ekki alveg upp í mínum huga, annaðhvort hafa þau greitt þessa hækkun til ríkisins eða þau geta mætt henni núna. Þau eru komin á sama ról núna og þau voru í 1989. Maður skilur ekki af hverju ríkissjóður á að fara að borga þarna á milli nema þetta sé í rauninni dulinn landsbyggðarstyrkur sem það auðvitað er.

Herra forseti. Mér sýnist frv. vera, nema sveitarfélögin finni sig aftur í sjálfákvörðunarréttinum, ekkert annað en dulin skattahækkun og ég get ekki staðið að því.