Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:58:55 (2293)

2000-11-28 15:58:55# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 10. þm. Reykv., Pétur H. Blöndal, vitnaði í umsagnir sveitarfélaga á suðvesturhorninu, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og einnig Norðurlands eystra. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann geri ekki heldur lítið úr áhyggjum sveitarstjórnarmanna og gefi lítið fyrir þörf þeirra til að auka tekjur þegar fyrir liggur að stöðug skuldaaukning sveitarfélaganna hefur leitt til þess að þau skulda tugi milljarða, hafa safnað 15 milljarða skuld á allra síðustu missirum og hvernig hv. þm. sjái fyrir sér að hægt sé að greiða af þessari gríðarlegu skuldasöfnun án þess að auka tekjur.

[16:00]

Fram hefur komið að langflest sveitarfélaganna telja að sparnaðaraðgerðir séu keyrðar í botn, lítið sem ekkert svigrúm sé til sparnaðar miðað við þau verkefni sem sveitarfélögin eiga að inna af hendi. Því finnst mér leggjast lítið fyrir hv. þm. að einfalda hlutina á þann hátt sem hann gerir í ræðustóli og gefa í skyn að þetta sé miklu minna mál en raun ber vitni.

Við höfum rætt á hinu háa Alþingi skuldastöðu sveitarfélaganna. Þess vegna væri fróðlegt að vita hvernig hv. þm. sér fyrir sér að hægt sé að leysa þennan vanda öðruvísi en að jafna trússið þannig að ríkissjóður láti af tekjupóstum til að gera sveitarfélögunum kleift að standa undir þeim skuldbindingum sem þau eiga að inna af hendi samkvæmt lögum.