Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 16:02:45 (2295)

2000-11-28 16:02:45# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get líka smækkað þetta ofan í heimilishaldið. Það er enginn vandi að rétta eigin hag ef kostnaðinum er velt yfir á hina í fjölskyldunni. Með verkefnatilfærslum má segja að sveitarfélögin hafi samið af sér vegna þess að t.d. grunnskóladæmið varð miklu dýrara en menn höfðu reiknað með, a.m.k. á mörgum stöðum. Við erum ekki að reka fyrirtæki, við erum að reka samfélag. Ég spyr hv. þm. að því hvort hann geti ekki fallist á að bætt staða ríkissjóðs eigi að hluta til rætur í því að verkefni hafa verið flutt yfir á sveitarfélögin. Það hefur orðið hagstætt ríkissjóði að því leyti að sveitarfélögin hafa borið aukinn kostnað sem hefði að öllum líkindum komið fram í rekstri ríkissjóðs ef kerfinu hefði ekki verið breytt þannig að sveitarfélögin tækju yfir þessi auknu verkefni.

En svo vil ég segja það til að gæta alls réttlætis að auðvitað eru til dæmi um að sveitarfélög hafa farið offari í fjárfestingum. Íþróttamannvirki voru nefnd. Það er alveg rétt. En það gildir ekki yfir línuna. Flest ef ekki öll íþróttamannvirki á Íslandi eru í miklum fjárhagsvandræðum og skulda mikið og það er málið. Það eru samskipti ríkis og sveitarfélaga og það er jafnvægið á milli ríkisins og sveitarfélaganna sem við erum að ræða um. Þar hallar á sveitarfélögin að mínu mati og ég vil spyrja hv. þm. hvort hann geti ekki verið sammála mér um það.