Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 16:06:20 (2297)

2000-11-28 16:06:20# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um ræðu síðasta ræðumanns. Hún var meira og minna úti á miðju túni og ekki í tengslum við eitt eða neitt. En honum rataðist þó næstum því satt orð á munn þegar hann lauk ræðu sinni með því að segja að hér væri um dulbúna skattahækkun að ræða. Það er þó ekki alveg rétt hjá honum því hún er algjörlega ódulbúin. Það er svo merkilegt, herra forseti, að við upphaf 2. umr. um málið, eftir að það hefur fengið umfjöllun í félmn. og raunar snar þáttur þess líka í efh.- og viðskn. og fyrir liggur afstaða meiri hluta og minni hluta í þessum nefndum tveimur, að nú deila menn ekki lengur um ýmsar staðreyndir sem ráðherrar, bæði fjmrh. og félmrh., reyndu að halda uppi þófi út af við 1. umr. málsins. Þeir reyndu nefnilega að halda því fram að þetta upplegg væri ekki hrein og klár ávísun á skattahækkun á almenning í landinu. En nú þarf ekki vitnanna við. Nú er öllum ljóst sem hafa fjallað um málið, bæði meiri og minni hluta í þessum tveimur nefndum, og öllum þeim sem hafa haft nennu til að skoða efnisatriði málsins og stöðu þess að verið er að leggja hærri skatta á almenning í landinu. Það kemur skýrt fram hjá sveitarfélögunum í landinu, það kemur skýrt fram hjá launþegasamtökunum í landinu og það kemur einfaldlega skýrt fram í talnagögnum málsins. Um þetta þurfum við ekki lengur að deila. Þetta er bara svona. Ráðherra félagsmála er illa fjarri góðu gamni og ráðherra fjármála er raunar líka fjarri góðu gamni af kannski skiljanlegum orsökum. Ég vildi í þeirra sporum ekkert sérstaklega vera hér. Ég mundi ekki sækjast eftir að sitja undir þessari umræðu og axla ábyrgð mína á því að hækka skatta á almenning í landinu og verða þess valdandi að þúsundum saman detti launalægsta fólkið, einstæðir foreldrar, þeir sem höllum fæti standa, inn í hið beina skattkerfi. Með öðrum orðum hrökkva upp fyrir skattleysismörkin eins og tölur frá efh.- og viðskn. hafa sýnt.

Ég held að ekki sé mjög eftirsóknarvert, herra forseti, að standa til svara við þær aðstæður og ekki síst þegar fyrir liggur að þessir tveir flokkar, og sérstaklega saman, hafa reynt að halda því fram, úttútnaðir á stundum, rétt fyrir kosningar, að þeir séu stjórnmálaflokkar sem haldi í heiðri hóflegar skattálögur á fólk. Þeir haldi í heiðri að draga niður í kerfinu. Haldi í heiðri frelsi einstaklingsins til athafna, vilji að draga úr samneyslunni. Auðvitað er þetta allt prjál og þvættingur þegar til stykkisins kemur.

Herra forseti. Ég fagna því þó alveg sérstaklega að hæstv. landbrh. hefur hugrekki til að vera við umræðuna sem starfandi félmrh., komi hann fagnandi. Það sýnir hugrekki og einurð af hans hálfu að hann skuli þora að vera við þessa umræðu og reyna að verja þá skattahækkun á land og lýð sem í þessu frv. er fólgin.

Herra forseti. Ég á eftir að fara nokkrum orðum um hvar þetta kemur sýnu verst niður. En af því að ég hugsa ævinlega til fjalla og til hinna dreifðari byggða þegar ég sé hæstv. landbrh., þá eru líka innifalin í þessu frv. mistök, vil ég segja, þegar um er að ræða góða möguleika á staðfastri sókn fyrir byggðirnar í landinu. Það lá í fyrirheitum ríkisstjórnarinnar og raunar áhuga allra stjórmálaflokka á lækkun fasteignaskatts og hefði svo sannarlega getað leitt til þess, að einhverju leyti vonandi, að dregið hefði úr fólksflóttanum af landsbyggðinni. En hvernig nota menn þetta tækifæri, herra forseti? Hver var niðurstaðan þegar að því kom? Hún var einfaldlega sú að fasteignaskattslækkunin, sem var svo sannarlega réttlætismál, var jafnharðan tekin til baka með hækkun á útsvari. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. landbrh. og félmrh., hvort honum þyki sú niðurstaða málsins að loforð um fasteignaskattslækkun, loforð um gjaldalækkun á landsbyggðinni, hvort í henni hafi verið falið ævinlega loforð um að hækka útsvarið jafnmikið á móti. Ég minnist þess ekki sérstaklega að því viðhengi hafi verið bætt við þegar þessu var lofað. En það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér þó hæstv. landbrh. hafi farið um héruð Suðurlands, til að mynda í eigin kjördæmi og sagt fólki þar: Um leið og fasteignaskattarnir lækka á ykkur, kæru vinir, ætlum við að hækka útsvarið þannig að þið standið jafnsett eftir. Kannski þeir hafi verið saman í þessari för hæstv. landbrh. og sveitungi í Suðurlandskjördæmi, Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri á Hvolsvelli, og þeir hafi sérstaklega staldrað við á Hvolsvelli í heimabæ hæstv. forseta þar sem þeir hafi sagt við Hvolsvellinga: Kæru vinir, nú ætlum við að lækka á ykkur fasteignaskatta en gætið að, ekki gleðjast of fljótt því við ætlum að hækka á ykkur útsvarið á sama degi. Þið standið því jafnsett eftir.

Var það þessi ræða sem þingmenn íhaldsins og Framsóknar fluttu á Suðurlandi? Mér er spurn. Ég vænti þess að sitjandi, starfandi og standandi félmrh. svari mér hispurslaust um þetta efni. Og einnig hitt, hvort hann sé mér ekki sammála í því að þarna hafi menn misst gullið tækifæri í viðnámi gegn fólksflótta og vanda landsbyggðar. Ég man ekki betur en að sumir þingmenn Framsfl. hafi stundum farið fram með þá hugmynd að hafa mismunandi skattálögur á fólk eftir því hvar það byggi, jafnvel í tekjuskatti og raunar í fyrirtækjasköttum líka. Að vísu eru miklir vankantar á slíkum hugmyndum og ég hef ekki heyrt þeim hreyft lengi núna. En ég man ekki betur en að það væri hæstv. landbrh. sjálfur sem hafi hreyft þessu í blaðagrein fyrir síðustu kosningar ásamt kollega sínum, hv. þm. Hjálmari Árnasyni. Þá stóð hugur hans til þessa. Þegar gullna tækifærið kemur síðan í fasteignaskatti, sem er réttlætismál og stangast ekki á við réttlætiskennd eða siðferðiskennd eða formlega á við nokkurn skapaðan hlut, þá eyðileggur hann tækifærið með því að styðja þann gjörning, sem við okkur blasir, nefnilega að hækka útsvar.

Herra forseti. Óhjákvæmilegt er annað en að rifja þetta aðeins upp, þ.e. kúvendingu málsins í hugum stjórnarliða og þá viðurkenningu sem þeir eru nauðbeygðir til að undirgangast, að þetta frv., þessar tillögur, munu leiða til hækkunar á sköttum á landi og lýð.

[16:15]

Ég veit einfaldlega að hv. stjórnarliðar, hv. þm. stjórnarliðsins geta ekki annað en verið mér sammála um þær ályktanir sem ég dreg af þeim viðburðum sem við okkur blasa, þeim ákvörðunum sem sveitarstjórnir hafa tekið í sambandi við útsvarið sem eru nánast undantekningarlaust þær að sveitarstjórnir telja sig nauðbeygðar til að nýta þær heimildir sem hér eru boðnar, sem leiða sannarlega til þess að skattar hækka. Ég skoðaði mér til gamans --- þetta er að vísu engin vísindaleg rannsókn, en mér sýnist í fljótu bragði að það séu ekki færri en 13 þingmenn Framsóknar og Sjálfstfl. sem geti talið sig til núverandi eða fyrrverandi sveitarstjórnarmanna. Þar af eru átta sjálfstæðismenn og fimm framsóknarmenn. Þetta eru engin vísindi, þeir geta verið fleiri og þeir geta verið færri en af þessari stærðargráðu er staðan.

Ég velti því dálítið fyrir mér hvernig sérstaklega þessu fólki líði undir umræðunni, undir þeirri atkvæðagreiðslu sem fram undan er þegar það með atkvæðum sínum ætlar að knýja fyrrum félaga sína í sveitarstjórnum umhverfis landið til að leggja hærri skatta á fólk, vegna þess að þetta sama fólk hér inni hefur ekki dug, döngun eða pólitískt þrek til að gera hið rétta í málinu, þ.e. að lækka tekjuskatt að sama skapi. Fyrir liggur tillaga um það og eftir því verður alveg sérstaklega tekið hvernig þetta fólk greiðir atkvæði þegar að því kemur, hvort það sé áhugasamt um að fyrrum félagar þess í sveitarstjórnum séu settir upp við þann vegg að hækka skatta á íbúa í Reykjanesbæ, af því að ég sé fyrrum sveitarstjóra þar syðra fyrir framan mig, hv. þm. Kristján Pálsson, eða á Suðurlandsundirlendi af því að ég sé hv. hreppsnefndarfulltrúa Drífu Hjartardóttur. Mun henni líða alveg sérstaklega vel þegar hún tekur ákvörðun sína á hinu háa Alþingi á næstu klukkustundum eða dögum? Ég held ekki. Ég held að þarna eins og stundum áður vanti þetta pólitíska þrek til að standa í ístaðinu, til að standa gegn þeim foringjum sem öllu virðast ráða, þeim foringjum sem lögðu línuna síðsumars með því að lýsa sveitarstjórnarmenn nánast óalandi og óferjandi, og það var engu minni maður en hæstv. forsrh. sem lagði þá línu. Eftir höfðinu dansa limirnir og niðurstaðan er þessi.

Auðvitað var hverjum manni ljóst hvað hæstv. forsrh. var að fara þegar hann hélt því fram að sveitarstjórnarmenn þyrftu aðeins að þrengja beltisgjörðina, draga aðeins saman seglin og kunna að reka sveitarfélög sín. Hann átti auðvitað við Reykjavíkurborg. Hann, og raunar fleiri ráðherrar ríkisstjórnarinnar, hefur um mánaða og missira skeið gert allt sem í hans valdi stendur til að bregða fæti fyrir stjórn höfuðborgarinnar í tilraun hennar til að veita fólki í borginni þjónustu. Það hefur hver einasti maður séð og hæstv. fjmrh. hefur ekki verið maður að minni í þeirri aðför, sem ég vil kalla svo, að Reykjavíkurborg. Það birtist í þessu máli. Það birtist ítrekað í því þegar hæstv. samgrh. er sendur út á örkina og látinn skera niður í samgöngumálunum á þessu svæði. Þar þarf ekki vitnanna við frekar en í svo mörgum öðrum málum.

En menn gleyma því gjarnan og hæstv. forsrh. og viðhlæjendur hans átta sig ekki á því að menn hitta stundum sjálfa sig fyrir. Þannig er það í þessu tilfelli. Því miður er það svo að í allt of mörgum stórum sveitarfélögum hvað íbúafjölda og umfang varðar eru það einmitt helmingaskiptaflokkar Framsfl. og íhaldsins sem ráða ríkjum. Þannig er það til að mynda fyrir sunnan okkur í mínu kjördæmi, Reykjaneskjördæmi. Þar þurfum við ekki annað en fara yfir svæðið: Kópavogsbær og Garðabær þar sem íhaldið er að vísu eitt við stjórn, Hafnarfjörður og Reykjanesbær svo nokkur þeirra stærstu séu nefnd til sögunnar. Auðvitað var forsrh. að skamma þetta fólk líka og segja við flokkssystkin sín: Þið kunnið ekkert með peninga að fara. Þið getið ekkert. Hann komst ekki hjá því, hann sá það auðvitað að það liti illa út að einskorða sig við höfuðborgina og varð því að taka alla með. Og í þessu höggi fengu með öðrum orðum fleiri á vangann en eingöngu pólitískir andstæðingar í Reykjavík, ekki síður flokkssystkin í öðrum stórum sveitarfélögum bæði á suðvesturhorninu og raunar víðar um land.

Það var raunar merkilegt innlegg í þetta mál, ég sagði það við fyrri umræðu, og ég er ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli þegar ég segi að vinnan í þeirri nefnd sem ég sat í og gekk býsna vel lengi framan af tók nokkrum breytingum. Það urðu nokkur skuldaskil, nokkur vatnaskil þegar forsrh. þjóðarinnar fór fram með þessum hætti.

Mér er líka kunnugt um að í ranni Sjálfstfl., þingflokksins m.a., voru þessi mál rædd mjög ítarlega síðsumars og þá var uppleggið það að ekki ætti að gera neitt fyrir sveitarfélögin í landinu. Þau yrðu bara að lifa við það sem þau hefðu og engin sérstök þörf væri á aðgerðum. Þetta kom fram í nefndarstarfinu og mönnum brá óneitanlega í brún. Þetta gekk manna á milli meðal sveitarstjórnarmanna, þeir fylgjast með eins og velflestir aðrir, og höfðu miklar áhyggjur af. Ofan af þessu var hægt að vinda og það tókst að breyta þeirri stöðu málsins þannig að menn sáu nauðsyn þess að mæta þyrfti sveitarfélögunum einhvers staðar, því aldrei var um það deilt eitt aukatekið andartak og engan hef ég heyrt deila hér inni af þeim hv. þm. sem hafa lagt sig eftir að kynna sér þessi mál, að þörf sveitarfélaga fyrir aukið fjármagn er óumdeild. Menn geta deilt um hvort þær upphæðir séu 4--6 milljarðar á ári hverju eða 5--7 milljarðar. Um það má deila og um það má takast, en þessi stærðargráða er engu að síður á þessu bili. Og ég skora á þann hv. þm. stjórnarliðsins sem vefengir þær tölur um að sveitarfélögin þurfi auknar tekjur til að standa undir lögbundinni þjónustu, eðlilegri uppbyggingu hvort sem það er í sókn eða vörn, hvort sveitarfélögin þurfi ekki á þessum peningum að halda. Ég held að ákaflega fáir séu í þessum sal, herra forseti, sem þora að stíga á stokk og neita slíku. Tölfræðin liggur fyrir, staðreyndirnar liggja fyrir.

Verkefnið í nefndinni var því að taka um það ákvörðun hvernig ætti að skila þessum fjármunum til sveitarfélaganna. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar þegar á veruleika hlutanna er horft að ekki hafi verið um það að ræða að auka sérstaklega einhliða heimildir til nýrrar tekjuöflunar fyrir sveitarfélögin heldur hitt að vitlaust var gefið og það ætti að breyta tekjuskiptingunni milli þessara tveggja opinberu aðila, milli þeirrar opinberu þjónustu sem annars vegar birtist hjá sveitarfélögum í landinu og hins vegar hjá ríkinu. Það var hið einfalda verkefni. Það var hægt að gera með ýmsu móti og ég ætla að koma að því lítillega á eftir, en allt í lagi, ef menn vildu fara þá einföldu leið að því verkefni að heimila útsvarshækkun, mæta því síðan aftur með tekjuskattslækkun þannig að jöfn skipti yrðu, þá var það leið sem ég var fyllilega til viðræðu um. En niðurstaðan varð auðvitað ekki sú. Hún varð allt önnur eins og ég hef rakið og leiddi til þess að sá aðili sem völdin hefur, sem áhrifin hefur, löggjafarvaldið að meiri hluta til, tók þá ákvörðun að knýja hinn opinbera þjónustuaðila til að leggja álögur á fólkið í landinu. Það er sárgrætileg niðurstaða, herra forseti, og hún verður fest á spjöld sögunnar og eftir henni verður tekið.

Menn skulu ekki halda, herra forseti, þótt tiltölulega langt sé í næsta kjördag á Alþingi, að á þetta verði ekki minnst. Þetta verður rifjað upp aftur og aftur og aftur (Gripið fram í: Og aftur.) og jafnvel það. Enda verður það þannig, herra forseti, að það er ekki eingöngu í einni lotu sem á að hækka álögur á fólk. Menn ætla að gera það tvisvar, byrja á því núna fyrir komandi ár og síðan er sveitarsjóðunum stillt upp við það verkefni, raunar á kosningaári sveitarstjórna, að hækka enn frekar álögur á fólk í landinu. Það var einmitt þetta sem ríkisstjórnin og stjórnarliðar á þingi töldu hvað mikilvægast.

Herra forseti. Ég nefndi til sögunnar þingmenn stjórnarliðsins sem hafa haft, og sumir hverjir hafa enn, tengingu við sveitarstjórnarstigið og ég nefni sérstaklega tvö nöfn í því samhengi sem eru enn starfandi sem slíkir. Það er annars vegar hv. þm. Drífa Hjartardóttir og hins vegar hv. þm. Gunnar Birgisson. Ég neita því ekki, herra forseti, að ég bíð þess í miklu ofvæni og ætla að sitja um þær ræður þegar þeir hv. þm. koma hér og lýsa viðhorfum sínum. Að vísu þarf hv. þm. Gunnar Birgisson tæpast að gera það því að ég sat fund með honum þann 20. október sl. þar sem haldinn var aðalfundur Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ég hafði þar ekki atkvæðisrétt, var þar sem þingmaður en hv. þm. Gunnar Birgisson hafði hins vegar atkvæðisrétt þar, enda var hann þar aukin heldur sem oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogsbæ og formaður bæjarráðs. Þar var samþykkt ályktum um það mál sem við ræðum hér, afskaplega skýr og afdráttarlaus, þar sem það liggur í fyrsta lagi fyrir að fundurinn taldi að bæta ætti sveitarfélögum upp tekjuskerðingu sem þau hafa orðið fyrir undanfarin ár en einnig hitt að best verði það gert, og ég les, með leyfi forseta, ,,með því að lækka tekjuskattsprósentuna jafnt og nemur hækkun á útsvarsprósentunni``.

Ég sá það með berum augum, herra forseti, þegar bæjarfulltrúinn úr Kópavogi, hv. þm. Gunnar Birgisson, lyfti hendi og samþykkti þá ályktun á fundi með félögum sínum á Seltjarnarnesi. Það hentaði þá. Ég bíð þess líka í miklu ofvæni þegar atkvæðagreiðsla um einmitt þetta tiltekna atriði verður á næstu dögum, hvernig hv. þm. Gunnar Birgisson ætlar að greiða atkvæði. Ætlar hann þá að guggna eða ætlar hann að fylgja félögum sínum, sveitarstjórnarmönnum á svæðinu, svo ég tali nú ekki um félögum sínum í bæjarstjórn Kópavogs, sem hafa einnig í áliti sem liggur fyrir félmn. tekið mjög afdráttarlaust sömu afstöðu. Að vísu er mér kunnugt um að hv. þm. var ekki á þeim tiltekna bæjarstjórnarfundi þegar það var samþykkt, en ég trúi því tæpast að oddviti sjálfstæðismanna þar í bæ gangi á móti félögum sínum.

Ég hef ekki tekið sérstaklega eftir því hvort sveitarfélag hv. þm. Drífu Hjartardóttur hafi sent álit inn í þennan bunka en ýmis nærliggjandi sveitarfélög hafa gert það og þar er sami tónninn uppi við: Tryggið okkur þessa tekjustofna en gerið það án þess að pína okkur til að hækka skatta á fólk. Og við höfum hér tillögu fyrirliggjandi sem gerir einmitt þetta.

Það er til að mynda á sama hátt eftirtektarvert hvort það verður hlutskipti hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar þar sem Skagamenn hafa eins og aðrir verið býsna afdráttarlausir í þessa veru, hvort hann ætli sér sem gamall sveitarstjórnarmaður þaðan að ganga gegn félögum sínum í sveitarstjórn, bæjarstjórn Akraness. Eftir því verður tekið líka. (Gripið fram í.) Ég er ekki að tala í meiri hlutum eða minni hlutum. Hafi menn ekki skilið orð mín, þá hef ég ekki verið að tala í meiri hlutum eða minni hlutum, enda er það svo að ekki í einu einasta áliti sem hér er að finna, herra forseti, skiptist afstaða sveitarstjórnanna í minni eða meiri hluta, ekki einu einasta. (Gripið fram í: Það er allt samhljóða.) Það er allt samhljóða. Og meira að segja í Reykjavíkurborg þar sem ýmsir hlutir gerast undarlegir á stundum, þar er Sjálfstfl. aðili að þeirri áskorun til alþingismanna um að lækka tekjuskatt til jafns við hækkun á útsvari. Þar slitnar ekki á milli þegar kemur að þeirri áskorun. Hvað síðan Sjálfstfl. gerir þegar til stykkisins kemur, þá kveður auðvitað við allt annan tón, þá fara borgarfulltrúar þar í gamalkunnugt hlutverk til að vera á móti. Það út af fyrir sig þarf ekki að koma á óvart og er algerlega í samræmi við þá skattahækkunarfléttu sem lagt var af stað með og snerist fyrst og síðast um Reykjavíkurborg.

[16:30]

Þannig var uppleggið, að knýja borgina eins og önnur sveitarfélög, og þá einkanlega Reykjavíkurborg, til að hækka útsvar til þess að borgarfulltrúar íhaldsins gætu síðan bent á R-listann og sagt: Ha, ha, ha, þið hækkuðuð skatta á borgarbúa.

Til þess var leikurinn gerður en þessi flétta hefur verið afhjúpuð fyrir margt löngu. Þeir sitja uppi með ábyrgðina sem eiga hana, stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi og engir aðrir, þannig er það bara.

Herra forseti. Talað var um að þetta væri samkomulagsmál og að um þetta hafi verið vélað í samskiptum Sambands sveitarfélaga og félmrh. og fjmrh. Mér er það til mikils efs og raunar fullyrði að svo er alls ekki. Ég kalla til vitnis í fyrsta lagi, eins og ég hef margoft sagt afstöðu sveitarstjórnarmannanna sjálfra, sveitarstjórnanna. Ég kalla til vitnis þá sérstöku aðila sem tóku þátt í þessari vinnu á upphafstímanum, þ.e. Guðmund Bjarnason og Ingimund Sigurpálsson, sem lögðust með sérstakri bókun, tóku fram að hér væri ekki rétt gefið. Hér er ekkert samkomulag á ferðinni eins og menn vilja vera láta.

Það kom og enda fram, herra forseti, í mjög litlu atriði út af fyrir sig þegar við tölum um hinar stóru tölur við umfjöllun um þetta mál sem er að finna í áliti meiri hluta félmn. þegar hæstv. félmrh. mundi allt í einu, af því hann hafði gleymt því þar til kom að fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi, að hann hafði einhvern tíma lofað því að styrkja sjálfstæðar vatnsveitur bænda. Þá stakk hann breytingartillögu sem var sköpuð í félmrn. inn í nefndina og bað meiri hluta nefndarinnar fyrir málið og meiri hlutinn skyldi klára það --- sem hann gerir auðvitað --- er kominn með málið inn óbreytt úr félmrn. eða lítt eða ekki breytt.

Hvað var upp á teningnum? Hvernig var samskiptum og samkomulagi háttað í málinu, sem er auðvitað ekki upp á stórar upphæðir, 25 milljónir, en er engu að síður prinsippmál? Það kom á daginn þegar fulltrúar Sambands sveitarfélaga ráku inn nefið á lokaspretti í störfum nefndarinnar að þeir höfðu ekki heyrt á þetta minnst. Enginn hafði nefnt þetta við þá. Þeir komu gjörsamlega af fjöllum.

Herra forseti. Svo mikil var þjónkunin við ráðherravaldið að meiri hluti nefndarinnar tók málið óbreytt inn þó á það hefði verið bent af hálfu Sambands sveitarfélaga að þarna væri verið að brjóta í blað, þarna væri verið að ganga gegn venjum og gildum sem hafa verið í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um langt árabil. Það er og enda þannig --- og ber nú vel í veiði af því að hæstv. landbrh. er hér viðstaddur --- að vatnsveitur bænda hafa verið og eiga að vera á vettvangi landbrn. Þær voru það í jarðræktarlögunum og sérstakir stofnstyrkir til þeirra framkvæmda voru fyrirliggjandi. En einhverra hluta vegna duttu þeir upp fyrir. Ég veit ekki hvort það er af dugnaðarleysi hæstv. landbrh. Ég veit ekki af hverju það er allt í einu að hæstv. félmrh. er að stela þessu máli frá hæstv. landbrh. Ég veit ekki hver ástæðan er en þetta mál er einfaldlega vistað á kolröngum stað því auðvitað gengur ekki að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fari að styrkja framkvæmdir einstaklinga. Þá eru menn komnir inn á nýtt svið, farnir að gera út á sjóðinn með allt öðrum hætti en áður hefur gerst. Til viðbótar gerist það að bændasamtökin á Íslandi, stéttasamtökin, hafa ákveðnu hlutverki að gegna lögum samkvæmt um að útdeila þessu fé. Á hvaða ferðalagi erum við, herra forseti? Hvers konar della og þvæla er hér í gangi?

Ég er manna áhugasamastur um að bændur í dreifðum byggðum með sjálfstæðar vatnsveitur, ekki síður en í samveitunum, geti drukkið hreint og gott vatn og hafi nóg af því. En við verðum að standa rétt að verki en sulla ekki saman löggjöf og verkefnum ráðuneyta í millum bara vegna þess að hæstv. félmrh. hafi lofað því einhvers staðar og gleymt að efna það loforð og af því að hæstv. landbrh. hafi lítinn áhuga á því í augnablikinu af einhverjum ástæðum þá sé þessu bara stungið inn í lög um tekjustofna sveitarfélaga. Nei, gætum að, herra forseti, það eru svona atriði þó að þau séu ekki stór í krónum talin sem draga úr trúverðugleika þessarar stofnunar. Þau draga líka úr trúverðugleika þeirra laga sem stofnunin sendir frá sér.

Ég spyr: Hvað næst með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga? Auðvitað er full ástaða til að spyrja á hvaða ferðalagi erum við með þann góða sjóð, við hér í stofnun sem hefur fjárveitingavaldið. Finnst mönnum það góð latína að setja á stofn sjóði sem sérstakar sjóðstjórnir deila út og eru farnir að telja ekki sex milljarða eins og áður var, ekki níu milljarða eins og í stefnir, heldur jafnvel 13, 14 ef það gengur eftir sem menn hafa áform uppi um varðandi málefni fatlaðra? Eru menn innst inni sammála því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, eins mikilvægur og hann er og eins miklu hlutverki og hann á að gegna, eigi að vera af þeirri stærðargráðu? Ég hef verulegar efasemdir um það.

Það kann aldrei góðri lukku að stýra eins og hann hefur verið notaður á síðustu tveimur árum þegar hæstv. ríkisstjórn hefur með sitt mikla samviskubit í byggðamálunum gripið til þess að dæla í hann einhverjum hundruðum milljóna, 700 var það á þessu ári, 700 á næsta og 700 á árinu 2001 til þess að sefa eigið samviskubit, og síðan eigi jöfnunarsjóðurinn að ráðstafa því fé. Tekið var upp nýtt hugtak, fólksfækkunarframlög, sem ég hélt að menn hefðu verið búnir að leggja niður hér og verið nokkuð sammála um fyrir ekkert mörgum árum.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, og ég undirstrika að ég hef miklar áhyggjur af stöðu hinna dreifðari byggða og við í Samfylkingunni höfum verið með fjöldamargar tillögur til að snúa þar við öfugþróun. En ég segi það, herra forseti, mér finnst mikil uppgjöf fólgin í því þegar stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi, sem hefur um sex ára skeið stjórnað byggðamálum, grípur til þess neyðarbrauðs að senda fólksfækkunarframlög heim í hérað. Aumara verður það ekki, herra forseti, dapurlegri getur vitnisburðurinn tæplega orðið um byggðastefnu Framsóknar og íhalds á umliðnum árum.

Á sama hátt hefur hin öfuga byggðaþróun verið þannig að fólksstraumurinn á suðvesturhornið hefur leitt til verulegra nýrra útgjalda fyrir sveitarfélög á þessu svæði, útgjalda sem menn hefðu sennilega einhvern tíma lagt í en þurfa að ráðast í innan þrengri tímamarka en áður var. Menn hafa reiknað út að hver einstaklingur sem flytur á höfuðborgarsvæðið kosti sveitarfélögin á þessu svæði eina, tvær eða þrjár milljónir á mann. Það eru þær tölur sem heyrst hafa á mann. Auðvitað kemur að því að þeir peningar nást til baka en það getur skapað sveitarfélögunum verulegan vanda meðan þessi öra uppbygging stendur.

Það hefur verið þumalfingursregla í þessum málum, ekki bara hér á landi heldur alls staðar annars staðar, að ör þróun í þroska og þjónustustigi sveitarfélaga sé ekki eðlileg, sé óæskileg, sé vond og menn eigi að gera þetta hægt og bítandi og samkvæmt áður skipulögðum forsendum. Það hefur auðvitað ekkert verið hægt vegna þess að þetta hefur verið stjórnlaust, ekki af hálfu sveitarfélaganna, en af hálfu stjórnvalda og það er kjarni málsins. Aftur og aftur hittum við naglann á höfuðið, hittum við fyrir þá sem hafa ráðið för og ráða för og sjá að ekkert þýðir að skamma Albaníu en meina Kína. Ekkert þýðir að lemja á sveitarfélögunum þó að mörg þeirra kunni ekki með peninga að fara, kannski flest þeirra undir forsjá helmingaskiptaflokkanna, heldur er það ríkisstjórnin sem skapar þennan ramma og hefur gert og því miður gert þannig að sveitarfélögin eru sum hver á hvínandi kúpunni, alveg á myljandi kúpunni, og nokkur þeirra í gjörgæslu félmrn., bæði stór og smá, (Gripið fram í: Nefndu þau.) og nokkur þeirra og mörg þeirra, því miður fyrir suma a.m.k., enda undir forsjá og handarjaðri Framsfl. og Sjálfstfl. Þannig er það, herra forseti.

Mér þykir voðalega erfitt, ég segi ekki sannara orð, að þurfa að viðurkenna að heimabær minn, hinn hýri Hafnarfjörður býr við þetta ok Sjálfstfl. og Framsfl. með þeim afleiðingum sem blasa við okkur að skuldsetning þess bæjarfélags er upp á sjö milljarða kr. Nú er svo komið, herra forseti, ... (Gripið fram í: Er ekki lífsgleði í Hafnarfirði?) Jú, það er sko lífsgleði, enda þarf hún að vera til staðar við þessar aðstæður. Það er svo komið að meiri hluti bæjarstjórnar þar syðra á ekki eina einustu krónu til að ráðast í fjárfestingar, byggja skóla, íþróttahús. Hann verður að gera það allt með þeim hætti að biðja verktaka að lána sér peninga í 30 ár, hann hefur gert það með þeim hætti að fara í svokallaða einkafjármögnun og síðan rekstrarleigu, taka á leigu skólana sem hafnfirsk börn eiga síðan að læra í næstu 25 árin. Eftir þessi 25 ár þurfa þau bæjaryfirvöld, sem þá ráða för, að hitta sömu verktaka fyrir og segja: Hvað um framtíðina, getum við fengið þessi skólahúsnæði keypt eða þurfum við að leigja áfram eða ætlar þú kannski að breyta skólanum í eitthvað allt annað?

Þetta er nú það sem blasir við í bæjarfélagi mínu og það verður aldeilis verkið, og ég glöggva mig á því, fyrir okkur samfylkingarmenn að taka við völdum í því bæjarfélagi og svo víða annars staðar eftir næstu kosningar. Ekki hjálpar það til sem við gerum hér, því er nú verr og miður.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég vil hins vegar aðeins fara almennum orðum um sveitarfélögin og stöðu þeirra því ég hygg að mikill þverpólitískur meiri hluti á hinu háa Alþingi sé þrátt fyrir allt þeirrar skoðunar að efla þurfi sveitarfélögin í landinu og menn meini það og vilji það og ætli það og að raunverulega þurfi að flytja verkefni frá þunglamalegu og stundum óskilvirku ríkisvaldi út í hérað til sveitarfélaganna. Ég er ég líka þeirrar skoðunar að það séu ekki mjög margir hv. alþingismenn sem taki undir hugmyndir sem er stundum hreyft hér um þriðja stjórnsýslustigið. Ég er ekki þeirrar skoðunar, við erum það lítið land, við erum það fámenn að við þolum ekki fleiri apparöt. Það mundi auka á kostnað og minnka skilvirkni. Ég trúi því að þrátt fyrir allt sé mikill þverpólitískur meiri hluti um það að efla sveitarfélögin með því að skila til þeirra verkefnum og auðvitað peningum í leiðinni --- og þar kemur auðvitað vandi málsins. Þannig er orðið samband milli ríkisstjórnar helmingaskiptaflokkanna og sveitarfélaganna í landinu mitt í miðju góðærinu þegar ríkissjóður skilar tugum milljarða afgangi á hverju ári þá þora sveitarfélögin ekki í samningaviðræður við ríkisvaldið.

[16:45]

Það er tæpast að sveitarfélögin þori að eiga orðastað við ríkið um tilflutning á verkefnum sem snúa að þjónustu við fatlaða og skyldi engan undra eftir að hafa verið brennimerkt eins og raun ber vitni í tilflutningi á grunnskóla þar sem allar tölur sýna svart á hvítu að sveitarfélögin sitja eftir með sárt ennið. Að vísu hafa íbúar sveitarfélaganna, held ég, notið góðs af því. Börnin í sveitarfélögunum hafa í langflestum tilvikum fengið meiri nánd í þjónustunni og ég held að foreldrar hafi komið miklu virkari inn í allt skólastarf eftir að sú tilfærsla átti sér stað, enda var ég eindregið þeirrar skoðunar að það ætti að verða. En menn eru dálítið brennimerktir af þessari reynslu og vilja fara sér hægt.

Ég held þess vegna að þetta mál sem við förum fram með núna sé svo mikilvægur mælikvarði á það og við skulum segja, svo mikilvæg vatnaskil í málinu að ef okkur tekst sæmilega upp hér og nú, skilum þessum peningum til sveitarfélaganna, þessum auknu heimildum, þessum auknu tekjum bara upp á punkt og prik án þess að með fylgi þessi bastarður að þurfa að knýja sveitarfélögin til að hækka skatta, þá geti það aftur lagað mjög þessi samskipti og verið ákveðin byrjun á nýju lífi í samskiptum þessara tveggja aðila því að ég vil sjá fleiri þætti fara heim í hérað. Menn hafa nefnt fatlaða sem ég og gerði. Ég hef til að mynda lengi verið þeirrar skoðunar að menn eigi að skoða lögreglumálin algerlega upp á nýtt. Þau mál eru í miklum vanda og við höfum oft rætt það í þessum sölum hvernig þessi grenndarþjónusta hefur minnkað eftir því sem hæstv. dómsmrh. hefur nefnt það hugtak oftar og meiri peningum er ýtt út í miðstýrt ríkisapparat, ríkislögreglustjóra. Ég sé fyrir mér að ákveðinn þáttur löggæslunnar, umferðarstjórn, grenndarþjónusta, svona nándarlöggæsla eins og víða er um lönd, verði á hendi sveitarfélaganna. Ég er alveg sannfærður um að bæði mundi þjónustan batna og samskipti ég vil segja íbúa og löggæslu að verulegu leyti þar sem menn þekktu þann sem hefði lög og reglu með höndum og hann þekkti þá sem hann ætlaði að eiga samskipti við. Ég er algjörlega handviss um það, efast ekki um það eitt andartak.

Það er kannski verið að nefna hér snöru í hengds manns húsi en ég hef stundum velt því fyrir mér hvort framhaldsskólarnir ættu að vera á hendi sveitarfélaga. Það er afleitt að nefna það við þessar aðstæður þegar þeir eru í þeirri stöðu sem raun ber vitni. En kannski er það líka á hinn bóginn merki þess að ríkisvaldið eigi að ýta því verkefni með hægðinni yfir á sveitarfélögin því að ég er handviss um að þau mundu standa betri skil á því en menntmrh. og hans fólk hefur gert.

Ég vil ekki segja að það hafi verið mistök--- það var kannski tímanna tákn --- en ég held að menn eigi að endurmeta þá ákvörðun sem var tekin í lok 9. áratugarins, 1988--1989 eða hvenær það var, þegar heilsugæslan var flutt á ríkisvaldið frá sveitarfélögunum að verulegu leyti. Ég held að heilsugæslan sé einmitt sú dæmigerða grenndarþjónusta sem eigi að vera á hendi sveitarfélaga. En um það þarf líka að semja.

Náskyldur þáttur þessu sem sveitarstjórnarmenn hafa árum saman rætt er þar sem heimahjúkrun skarast við heimilishjálp. Annar þátturinn er á hendi sveitarfélaganna og hinn á vegum ríkisins. Þetta hefur verið vandamál og samspil þátta sem hefur skapað togstreitu og erfiðleika og enginn annar tapar en sá sem þjónustunnar á að njóta.

Í þessari ágætu skýrslu er líka nefnt eitt verkefni sem menn ætla að ganga til verka við. Það er þátttaka sveitarfélaga í Innheimtustofnun sveitarfélaga. Ég held að flestir séu sammála um það nú í seinni tíð að það er ekki sérstaklega margt sem mælir með því að sveitarfélögin þurfi að verja milli 500--600 millj. á ári hverju eins og það er núna um stundir til þess að greiða gjaldfallin meðlög, þ.e. meðlög sem ekki koma inn af hálfu þeirra sem eiga að borga þau. Þó að sveitarfélögin hafi vissulega framfærsluskyldu þá er þetta, held ég, að öllu samanlögðu verkefni sem færi betur að væri á hendi Tryggingastofnunar ríkisins en sveitarfélaganna í landinu. Þar hefði mátt til að mynda létta verulegum þunga af sveitarfélögum. Ég nefni í þessu samhengi líka hvort það sé mjög eðlilegt að sveitarfélögin standi sjálf undir rekstri eigin jöfnunarsjóðs. Ég hef vissar efasemdir um að það eigi endilega að vera verkefni sveitarfélaganna að greiða upp undir, ég held ég muni rétt, í kringum 3 milljarða kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Með öðrum orðum, þau eiga að jafna innbyrðis. Ég held að þetta hlutverk eigi að vera alfarið á hendi ríkisvaldsins, að ríkisvaldið eigi að kosta þennan sjóð. Svo geta menn deilt um það eins og ég sagði áðan hversu víðfeðmur hann á að vera og hvernig hann á að reka. En jöfnunarhlutverkið á að vera á hendi ríkissjóðs.

Margir sveitarstjórnarmenn hafa líka sagt við mig: Ef fasteignaskatturinn er orðinn misjafn í borg og þorpum og er ákveðið jöfnunartæki skattanna, er þá ekki rétt að ríkissjóður hafi þennan tekjustofn en sveitarfélögin fái eitthvað annað?

Herra forseti. Að mörgu er að hyggja í þessu. Ég gat þess líka í áliti mínu við fundarslit í tekjustofnanefnd að menn þyrftu líka og hefðu kannski ekki farið nægilega langt í því að skoða til hlítar raunverulega möguleika á því að breikka tekjustofna sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög bentu með réttu á mikilvægi þess að tengja betur tekjustofna af umferð, sem er vissulega hlutverk sveitarfélaganna. Mörg sveitarfélög bentu á mikilvægi þess að tengja betur atvinnulíf og tekjustofna sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög bentu á það að í náinni framtíð munu umhverfisskattar af einum eða öðrum toga verða vaxandi og þar þyrfti að tengja. Mörg sveitarfélög bentu á þá þróun sem sannanlega hefur orðið og leitt hefur til tekjutaps sveitarfélaga þegar einstaklingar breyta sjálfum sér í hlutafélög eða einkahlutafélög, þar sem þau þurfa að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Jafnvel voru sveitarfélög sem nefndu óbeina skatta á borð við virðisaukaskatt, þau væru með öðrum orðum þátttakendur í sveiflunni en létu ekki ríkisvaldið segja sér fyrir verkum í því með skömmtun úr hnefa.

Herra forseti. Það er fjölmargt sem við þurfum að ræða á hinu háa Alþingi við sveitarfélögin. Þessi umræða er í því samhengi langt í frá á enda runnin. Við þurfum því augljóslega að halda henni áfram ákveðið og kröftuglega og ég segi þá enn og aftur, herra forseti, að miklum mun betra hefði verið það andrúmsloft í þeirri framhaldandi viðræðu sem óhjákvæmileg er ef menn hefðu ekki gengið svona undir, ef þingmeirihlutinn hefði haft vit á því að tryggja sveitarfélögunum eðlilega hlutdeild í sameiginlegum tekjum hins opinbera án þess að pína þau til skattahækkunar. Það er hinn alvarlegi hlutur sem snýr að sveitarfélögunum sjálfum. Þeim er þó kannski engin vorkunn að bera þann kross. Miklu alvarlegra er fyrir almennt launafólk í landinu, þegar augljóst er að góðærið margfræga er að renna sitt skeið á enda og blikur eru á lofti, að þá loksins telji þingmeirihlutinn á hinu háa Alþingi undir forustu ríkisstjórnarinnar ástæðu til að hækka skatta. Hafi einhvern tíma verið ástæða til að hækka skatta þá var það til að draga úr neyslu og þenslu á góðæristímabilinu. En þegar harðnar á dalnum sem allar vísbendingar eru því miður um þá grípur ríkisstjórnin til þess að hækka skatta á almenning í landinu. Þetta er, herra forseti, minnisvarði sem ég væri a.m.k. ekki mjög hreykinn af.