Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 16:55:06 (2298)

2000-11-28 16:55:06# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í mörgu mæðast menn og maður fyllist alltaf samúð þegar jafnbjartsýnir og lífsglaðir menn eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson þurfa að mæðast í svona erfiðleikum í uppgangi í þjóðfélaginu þar sem góðæri er ríkjandi, bjartsýni fólksins er mikil og enginn er að missa móðinn. En þá boðar hann myrkur og erfiðleika af miklum móð. Þetta er eiginlega hvorki í samræmi við skaphöfn né eðli þessa hv. þm. sem meira að segja klæðist blárri skyrtu vonarinnar um betri tíð þannig að margt kemur mér á óvart í þessum málflutningi og mér finnst að ég eigi hann að samherja í bjartsýninni og trúnni á lífið.

Ég er sannfærður um að ríkisstjórnin var að koma til móts við sveitarfélögin. Við vorum að efna loforð við landsbyggðina um að lækka fasteignaskatta. Það mun koma mörgum vel. Sú upphæð er á annan milljarð. Það er eðlilegt að frelsi sveitarfélaganna til sjálfsákvörðunar sé aukið samhliða. Svo ber auðvitað að fagna því að ríkisstjórnin er á mörgum sviðum að koma til móts við fólkið í landinu. Ég hygg að 2 milljarðar komi í gegnum fjárlög til viðbótar til barnafólksins í fjölskyldubætur og samhjálpinni þannig að margt er vel gert.

Hvað vatnsveitur sveitarfélaganna varðar þá fagnar landbrh. sérstaklega því réttlæti. Þar var mikill mismunur á í landinu hvernig dreifbýlið var sett miðað við þéttbýliskjarna. (Forseti hringir.) Nú er það komið í höfn. Bændasamtökin eru þekkt að því að kunna vel til stjórnsýslustarfa. Ég treysti þeim fullkomlega, hæstv. forseti.