Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 16:57:29 (2299)

2000-11-28 16:57:29# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég á bróður og mágkonu sem eru prestar. Ég veit að hæstv. landbrh. er fæddur sem slíkur en ég bið hann að stilla þeim þönkum sínum í hóf við þessa umræðu hversu glaður sem hann er. Það er kannski hlaupin í hann aðventa, ég skal ekki segja.

Herra forseti. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Það er einfaldlega þannig að ég lít á það sem háalvarlegt mál þegar verið er að leggja skatta á fólk sem berst í bökkum. Öðruvísi mér áður brá því þegar hæstv. landbrh. var í stjórnarandstöðu hafði hann miklar áhyggjur af því fólki sem átti undir högg að sækja og fór mikinn í þessum ræðustól. Það voru engar halelújaprédikanir sem þá voru haldnar. Því finnst mér ekki fara honum að hann tali um það af mikilli léttúð þegar hækkaðir eru skattar upp á milljarða kr. af svo miklum móð að nær liggur samkvæmt yfirlýsingum Alþýðusambands Íslands að forsendur kjarasamninganna sjálfra séu brostnar. Þá fer lítið fyrir hinni góðu trú og þeirri miklu bjartsýni sem hæstv. ráðherra vill halda á lofti.

Herra forseti. Ég spurði einfaldlega þessarar spurningar en hef ekki fengið svar við henni: Lofaði hæstv. landbrh. því í Suðurlandskjördæmi fyrir síðustu kosningar þegar hann hafði uppi fyrirheit um að fasteignaskattur yrði lækkaður um 1,1 milljarð yfir landið allt, að á sama degi yrði útsvarið hækkað jafnmikið? Lofaði hann því sérstaklega?

Ég vil að lyktum spyrja hæstv. ráðherra út af vatninu og bændunum. Ég vil hreint vatn handa bændum. (Forseti hringir.) Gafst hann upp á verkinu? Þurfti hann koma því yfir á félmrh.?