Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:14:29 (2309)

2000-11-28 17:14:29# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það veit sá sem allt veit að skelfing þætti mér gaman og gott að geta tekið þátt í gleðilátum þeirra hv. þm. sem hafa rætt um þessa styrku stöðu sveitarfélaga í landinu. Ég sé það algjörlega í hendi mér að þeir blessuðu menn og konur, sem voru að vinna í þessari nefnd, hafa bara verið á röngu róli. Þetta er allt tóm vitleysa og þvæla sem hér er sagt sem sýnir fram á viðvarandi halla sveitarfélaganna meira og minna allan síðasta áratug, sýna fram á það að sveitarfélögin skulda 51 milljarð kr. og geta ekki borgað krónu.

[17:15]

Þetta er tóm vitleysa. Eigum við að vera hér í allsherjarfögnuði og gleði, lyfta glösum og skála og sýna gleðilæti? Herra forseti, þannig er veruleikinn ekki þó að ég vildi gjarnan sjá hann þannig. Við eigum auðvitað tök á því að styrkja sveitarfélögin þannig að sú stund renni upp fyrr en síðar að þau geti staðið við þjónustu sína og borgað skuldir og framkvæmt fyrir eigið fé. Þannig er það því miður ekki í dag, herra forseti. Það er ekki hægt að skamma mig fyrir það. Svona er þetta bara.