Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:28:04 (2315)

2000-11-28 18:28:04# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja margt um þessa ræðu. Ég vona að efndir fylgi síðustu orðum sem hæstv. ráðherra lét falla vegna öryrkja og aldraðra vegna þess að sannarlega er kominn tími til að þessi hópur fái sinn hluta af góðærinu. Hvernig sem á málin er litið, hvaða tölur sem settar eru fram í því efni, þá held ég að allir viðurkenni að aldraðir og öryrkjar hafa ekki fengið samsvarandi hlut af góðærinu og aðrir í þjóðfélaginu. Sannarlega er ekki ástæða til að vera að setja aukabagga á þennan hóp sem gert er með þeirri almennu skattahækkun sem ríkisstjórnin stendur nú fyrir.

Herra forseti. Ég spyr: Getur hæstv. starfandi félmrh. svarað þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hann um það hvort tekin hafi verið inn í uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga frestun á skattlagningu á söluhagnaði en ríkisskattstjóri metur í svari sínu til þingflokks Samfylkingarinnar að sveitarfélögin hafi orðið fyrir tekjutapi vegna þessa upp á 2 milljarða kr.? Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að þær upplýsingar liggi fyrir við 3. umr. málsins áður en þetta frv. verður að lögum?