Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:36:46 (2319)

2000-11-28 18:36:46# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Skoðun mín á afstöðu lífeyrissjóðanna til þess að flytja sitt fjármagn og fjárfesta erlendis kemur fram í nefndaráliti minni hlutans þegar ríkisstjórnin var að afgreiða þeim heimild til þess að auka flutning á fjármagni úr landi. Þá mótmæltum við því, tefldum fram þeim rökum sem nú eru komin fram um hvaða áhrif þetta hefði á efnahagsumhverfið þannig að í nefndaráliti er hægt að lesa um niðurstöðu mína og stjórnarandstöðunnar í því máli.

Við viljum aðhald. Samfylkingin vill aðhald. En hún vill ekki að láglaunafólkið og lífeyrisþegarnir eigi að bera uppi það aðhald. Hvað er þessi ríkisstjórn að gera? Hún er að lækka skatta á fjármagnseigendur.

Tekjutap ríkis og sveitarfélaga af þeim sökum samkvæmt plöggum frá ríkisskattstjóra er 8,5 milljarðar. Hér er verið að hækka skatta á íbúana upp á 2,5 milljarða þegar frá er tekin þessi mildandi aðgerð sem ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir. Þá er engu að síður skattahækkun upp á 2,5 milljarða.

En hér hefur fjármagnseigendum verið hlíft og ríkisstjórnin ætlar að ganga lengra. Hún ætlar að lækka skatta á þennan hóp niður í 10% úr 38%, á sama tíma og hún hækkar skatta á lífeyrisþega og lægst launaða fólkið í landinu. Þannig vill Samfylkingin ekki sjá aðhald í þessu þjóðfélagi. Hún vill taka á þeim sem eiga peningana. Hún vill taka á þessari gengdarlausu fjármagnstilfærslu til þeirra sem betra hafa það, frá þeim fátæku og frá lífeyrisþegum. Þannig viljum við stjórna landinu en ekki eins og Framsfl. hefur gert með Sjálfstfl., að mylja sífellt undir þá sem mest hafa fyrir í þjóðfélaginu. Þannig á ekki að stjórna landinu. Og ég mundi nú ekki nefna barnabætur í sporum Framsfl. ef litið er til þess hvernig þeir hafa staðið að þeim málum sl. fimm ár.