Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:17:05 (2329)

2000-11-28 21:17:05# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:17]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér út af vatnsveitum, því sem fram kemur í áliti meiri hluta félmn. varðandi það að setja vatnsveitur undir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og að Bændasamtökin muni sjá um það. Við teljum að þetta sé mikill jöfnuður fyrir íbúa sveitarfélaganna. Víða háttar þannig til að jafnvel vatnsból sem hafa verið notuð fram á þennan dag teljast ekki hæf eftir því sem þau hafa verið rannsökuð meira. Það þarf að leita lengra inn í landið eftir hreinu og tæru vatni. Það er mikilvægt að fámenn sveitarfélög þurfi ekki að bera þennan kostnað, hvað þá einstaklingurinn. Margir ferðaþjónustubændur sem þurfa afar mikið vatn hafa lent í vandræðum vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki treyst sér til að greiða fyrir vatnsveiturnar þrátt fyrir að þau geti fengið eitthvað úr jöfnunarsjóði.

Þetta eru afar dýrar framkvæmdir fyrir dreifbýlisveitur eða fyrir einstök bændabýli en þetta eru mjög fá tilvik á hverju ári. Í nokkur ár hafa bændur ekki fengið styrk til að afla sér vatns samkvæmt jarðræktarlögum sem eru nú fallin úr gildi.