Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:39:42 (2334)

2000-11-28 21:39:42# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var merkileg ræða. Hún var fyrst og síðast í fortíð og eitthvað eilítið um framtíðina og að halda áfram þurfi þessari vinnu. Um það er ég sammála.

En hv. þm. Gunnar Birgisson skautaði hratt og ákveðið fram hjá meginatriði málsins og það er sú spurning: Er hv. þm. Gunnar Birgisson annar maður en bæjarfulltrúinn Gunnar Birgisson? Þegar ég rifjaði það upp í ræðu minni að á fundi sveitarstjórnarmanna á Seltjarnarnesi, hjá Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þá skoraði hann á hið háa Alþingi að lækka tekjuskattinn til jafns við hækkun útsvars. Það sama gerði hans eigin sveitarstjórn samhljóða. Og ég spyr: Er annar maður kominn hingað í þingsal en var úti á Nesi og á heima í Kópavogi fyrir nokkrum dögum?

Og ég spyr: Ætlar hann að styðja og greiða atkvæði brtt. Samfylkingarinnar um að ríkissjóður, sem er aflögufær, lækki tekjuskattinn til jafns við hækkun útsvars til þess að létta álögum á skattborgurum í Kópavogi og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu? Það er kjarni málsins, það er spurningin.