Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:50:44 (2344)

2000-11-28 21:50:44# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:50]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór vel yfir þær skerðingar sem sveitarfélögin hafa átt við að stríða og fengið frá ríkissjóði undanfarin ár. Ég var sveitarstjórnarmaður í 12 ár og þurfti að búa við þessar sífelldu skerðingar.

Hv. þm. ræddi aðeins um skattfrelsi lífeyrisiðgjalda. Það er alveg hárrétt sem hefur komið fram að það skerti ekki bara tekjustofna sveitarfélaganna heldur líka tekjur ríkissjóðs en munurinn var sá að ríkisstjórnin sem þá sat bætti sér þessar tekjur upp. Með öðrum orðum var tryggingarprósentugjaldið hækkað um 0,5% sem gaf um einn milljarð og í öðru lagi var persónuafslætti og öðrum bótagreiðslum haldið óbreyttum milli áranna 1995 og 1996. 1,6 milljarðar voru gefnir eftir en hvað tók hæstv. ríkisstjórn? Hún tók 1,8 milljarða, 200 milljónir í plús.

Mér finnst furðulegt að hlusta svo á hv. þm. í dag, sem er jafnframt sveitarstjórnarmaður eins og áður hefur komið fram, mæla þessari vitleysu bót.