Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:14:58 (2355)

2000-11-28 23:14:58# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:14]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þá spurningu sem ég lagði fram áðan. Ég tel mig ekki hafa fengið svar við henni. Hún var um þau sveitarfélög sem neyddust til að lækka fasteignagjöldin sín á síðasta ári til að koma til móts við íbúa þeirra. Það á að bæta þeim þetta upp út frá þeirri prósentu sem þeir voru með á síðasta ári. Það finnst mér ósanngjarnt. Þess vegna vil ég aftur spyrja, herra forseti, hæstv. starfandi félmrh. hvort ekki hafi komið til greina að nota ákveðin viðmiðunarár og sækja kvótakerfið sem Framsfl. er dálítið mikið að tala um núna þó það sé í jólabókarformi og ekki víst hverjir voru með og hverjir voru á móti. Hefði ekki verið hægt að nota viðmiðunarár, hefði ekki verið sanngjarnara að nota þrjú eða fimm síðustu ár sem viðmiðunarár fyrir fasteignagjaldsstofn í viðkomandi sveitarfélögum? Við vitum að nokkur sveitarfélög lækkuðu prósentuna síðast, neyddust til þess án þess að hafa efni á því.

Rétt í lokin, herra forseti. Við eigum að vera glöð og ánægð, segir hæstv. ráðherra, með þá áfangasigra sem náðst hafa. Það er sannarlega rétt en sem íbúi landsbyggðarinnar getur maður ekki verið mjög ánægður með sumt af því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin hefur lítinn áhuga á að bregðast við og hefur ekki sýnt neina tilburði til að bregðast við vandanum. Því miður er þetta gullna tækifæri með fasteignagjöldin að renna frá okkur. Ég held að það sé töluvert mikið til í því, herra forseti, sem hæstv. félmrh. Páll Pétursson sagði í svæðisútvarpi Norðurlands ekki alls fyrir löngu: Framsfl. hefur gleymt landsbyggðinni. Það eru orð að sönnu.