Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:17:07 (2356)

2000-11-28 23:17:07# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:17]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að færa hv. 3. þm. Norðurl. v. innilegustu þakkir fyrir upplestur úr umsögnum um frv. Það er alveg ómetanlegt fyrir þingið að fá þann upplestur í 15. sinn á þessum degi, ég tala nú ekki um fyrir þá sem munu lesa þessar umræður síðar meir, að vita að þetta hafi verið lesið svo oft upp hér á einum degi.

Ég kem hér upp að öðru leyti til að fjalla aðeins um mjög sérkennilega skoðun hv. þm. sem var sú að hann sagði að lækkun fasteignagjaldanna, sem er ómótmælanlegt að verður, komi ekki til góða fyrir þá sem ekki eiga fasteignir á landsbyggðinni. Það er þá væntanlega vegna þess, ef við reynum að fylgja þessu rökrétt eftir, að þeir íbúar hafa heldur ekki orðið fyrir barðinu, ef við getum orðað það svo, á þeirri gjaldtöku sem verið hefur við lýði undanfarin ár. Og þess vegna er ekki hægt að lækka hjá þeim, það er augljóst mál. Mér finnst þetta svo einkennilegur málflutningur að ekki er hægt að láta honum ómótmælt.

Að öðru leyti er það þannig að ef þessir íbúar eru í þeirri stöðu að leigja íbúðarhúsnæði og við lækkum kostnað af því húsnæði, íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði, þá mundi það væntanlega að öðru jöfnu leiða til þess að markaðsverðið muni lækka á leigunni vegna þess að við vitum að víðast hvar á landsbyggðinni er því miður tiltölulega lítil eftirspurn eftir húsnæði á leigukjörum. Þess vegna getum við séð það í hendi okkar að jafnvel fullyrðing hv. þm. stenst ekki. Þetta mun með einum eða öðrum hætti koma því fólki einnig til góða sem er að leigja húsnæði.

Það er óhrekjanlegt og hefur komið fram í öllum gögnum að þessi aðgerð ein og sér mun þýða lækkun upp á 1,1 milljarð kr. fyrir landsbyggðina. Ef við tökum Vestfirði sem dæmi er um að ræða lækkun fasteignagjalda úr 300 í 180 millj. kr., um 40%. Ég tók eftir að hv. þm. nefndi sérstaklega sveitarfélagið Skagafjörð og efaðist um að sveitarfélagið Skagafjörður fengi þá lækkun. Þar er þó ómótmælanlegt að um er að ræða lækkun upp á 45 millj. kr. í fasteignasköttunum út af þessu máli í sveitarfélaginu Skagafirði.