Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:19:20 (2357)

2000-11-28 23:19:20# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:19]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef ég hef eitthvað tafið aðrar áætlanir hv. þm. með lestri úr áliti ASÍ. Við höfum átt sameiginleg áhugamál um ýmislegt á landsbyggðinni og við getum farið í umræðuna um fasteignaskattana. Hvað með þá íbúa Bolungarvíkur sem eru í leiguhúsnæði, kennara og aðra sem ráðnir eru þangað? Þeir eru sannarlega ekki að borga fasteignagjöld, það er alveg hárrétt. En ætli það sé ekki hluti af þeim samningum sem gerðir eru til að fá slíkt fólk út á land til vinnu? Hver verður kjarabótin fyrir þá? Eru þeir ekki að fara að borga hærra útsvar? Er þetta ekki skattahækkun? Ég held það nú.

Aðeins af því hv. þm. fór að ræða um aðgerðir gagnvart landsbyggðinni. Ég ætla aðeins að rifja það upp, herra forseti, að við sátum í ágætri nefnd sem hét byggðanefnd forsætisráðherra, sem skilaði tillögum sem kallaðar voru bráðaaðgerðir. Hvernig hefur gengið að uppfylla ýmislegt af þeim, herra forseti? Eigum við að taka fyrsta atriðið í jöfnun húshitunarkostnaðar sem verið er að svíkja núna fullkomlega? Lítið skref var stigið í síðustu fjárlögum til að jafna þetta, en bara í rafhitun, hitaveiturnar voru skildar eftir. Hver er hækkunin í frv. núna? Litlar 30 millj.

Man hv. þm. eftir að tillögur okkar voru um að þetta mundi hækka í þremur jöfnum áföngum? Það er svo núna að ekki er staðið við það og engar tillögur eru komnar fram vegna fjárlaga næsta árs um að standa eigi við það loforð. Það á því sennilega við um fleiri en aumingja framsóknarmennina sem hafa gleymt landsbyggðinni að mati hæstv. félmrh. Það er sennilega töluvert til í því að sjálfstæðismenn hafi gleymt landsbyggðinni fyrir lifandi löngu.