Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:40:55 (2366)

2000-11-28 23:40:55# 126. lþ. 33.4 fundur 216. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (fjárhæðir) frv. 142/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:40]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. sem kveður á um gjaldtöku sem á að bera upp ákveðinn kostnað innan þess fiskveiðiárs sem við erum núna að framkvæma og sem lýkur þann 31. ágúst nk. Þetta gjald á að ákveða fyrir 1. desember ár hvert.

Fyrirvari minn við málið snýr að eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi er á það að benda að hlutfallsleg hækkun á gjaldinu er áberandi langmest annars vegar á krókabáta, þorskaflahámarksbáta og sóknarmarksbáta eða svokallaða krókabáta undir 6 tonnum en hún er 86% í öðru tilvikinu og 113% í hinu. Það er því ekki alveg samræmi á milli hvaða breytingum þessi gjöld taka eftir skipaflokkum. Síðan er rétt að vekja athygli á því að varðandi nótaflotann er verið að taka inn gjaldtöku af norsk-íslensku síldinni og kolmunnanum. Aukin gjaldtaka á nótaflotann er um 4 millj. kr. og tæplega 30% hækkun en það er þó sá fyrirvari að viðmiðunin sem þarna er notuð er m.a. bráðabirgðaúthlutun á loðnu og ef aukið verður við loðnuveiðarnar, sem má kannski telja líklegt miðað við reynslu undanfarinna ára, þó að aflabrögð á loðnunni á sumar- og haustvertíð hafi kannski ekki bent til þess en loðnan er mikill ólíkindafiskur. Ef svo færi er auðvitað verið að hækka gjaldið talsvert mikið á nótaflotanum. Þó að vissulega sé miðað við þorskígildisverðmæti og verðmæti þeirra afurða sem nótaflotinn veiðir hafi lækkað þá gæti samt verið um talsvert aukna gjaldtöku að ræða.

Síðan er eitt atriði sem er rétt að draga fram og fyrirvari minn lýtur einnig að og það er varðandi úthlutun á innfjarðarrækjunni. Svo hagar til að skipum er úthlutað aflahlutdeild m.a. í innfjarðarrækju og á þau skip sem fá úthlutað aflahlutdeild skal lagt gjald á grundvelli hlutdeildarinnar.

Nú kemur það iðulega upp, og hefur reyndar komið upp í Ísafjarðardjúpi nú í haust, að þar er búið að ákveða bráðabirgðakvóta sem hlutdeildin mun miðast við en mönnum eru meinaðar veiðarnar vegna seiðagengdar. Þeir munu samt sem áður þurfa að greiða gjaldið þó að þeir geti ekki nýtt sér tekjurnar, a.m.k. er það ekki alveg í hendi. Þarna er ákveðið misræmi þegar svona aðstæður koma upp. Þetta eru auðvitað afbrigðilegar aðstæður en eigi að síður fá menn úthlutaða hlutdeild í aflanum, fá ekki að fara til veiðanna og ekki afla sér tekna en eiga að greiða gjaldið.

Þetta eru þeir fyrirvarar sem ég vildi draga fram í umræðunni og lúta að því að ég skrifaði undir með fyrirvara.

Þar til viðbótar vil ég taka undir að ég held að eðlilegt sé að setja á fót sérstakan samráðsvettvang, sérstaklega þá útgerðarmanna, skipstjórnarmanna og Fiskistofu, um framkvæmd og ákvarðanir að þessu leyti varðandi veiðieftirlitsgjaldið.