Framkvæmd þingsályktunar um varðveislu báta og skipa

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 13:41:07 (2375)

2000-11-29 13:41:07# 126. lþ. 34.1 fundur 295. mál: #A framkvæmd þingsályktunar um varðveislu báta og skipa# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á því að þetta er hið mikilvægasta mál og hluti af sögu okkar. Við vorum reyndar að rifja það upp hér, hæstv. utanrrh. og ég, að við áttum einmitt samstarf um það á sínum tíma þegar hann var sjútvrh. og ég borgarstjóri að bjarga einu slíku skipi, Aðalbjörginni sem var síðan sett upp í Árbæjarsafn og á síðan að hverfa á hafnarsvæði á nýjan leik. Þetta er stór hluti af sögu okkar. En við skulum gera okkur grein fyrir því líka að þetta er heilmikið mál. Við þekkjum vandamálin á Akranesi. Þar er hið merka skip, kútterinn. Menn eiga í erfiðleikum með hann þó að hann sé varðveittur þar. Þetta er heilmikið mál því það er ekkert auðvelt að varðveita þessi skip úti. Þau þarf helst að varðveita við réttar aðstæður, rétt rakastig og slíkt. Þetta er heilmikill kostnaður þannig að við verðum að fara í þetta af festu og alvöru en jafnframt með gát.

En ég ítreka að ekki stendur annað til en reyna að afgreiða þetta mál fljótt og vel en það þarf líka að undirbyggjast vel.