Hreinsun og afhending neðra Nickel-svæðisins í Reykjanesbæ

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 13:50:30 (2378)

2000-11-29 13:50:30# 126. lþ. 34.2 fundur 290. mál: #A hreinsun og afhending neðra Nickel-svæðisins í Reykjanesbæ# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Ég hef ítrekað gert að umtalsefni á Alþingi umhverfisspjöll og mengun sem orðið hefur af völdum erlendrar hersetu og hernaðarbrölts hér og spurt að því hvernig menn hafi hugsað sér einmitt að hreinsa svæðin og hver eigi að borga. Þessi svæði eru mörg og um allt land. Hér er ekki bara um þetta margfræga Nickel-svæði að ræða. Það sem þarf að gera, herra forseti, er að mínu mati að fara í heildarúttekt og rannsóknir á því hversu umfangsmikil náttúruspjöll af völdum hersetu í landinu eru og hversu mikið verkefni það er að taka til og hreinsa upp menguð svæði og hvernig á að standa að kostnaði í sambandi við það.

Ég minni í því sambandi á tillöguflutning minn og hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur sem við höfum ítrekað verið með og kannski er tilefni til að endurflytja einu sinni enn í ljósi véfréttarlegra svara hæstv. utanrrh.