Flutningur eldfimra efna

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:07:29 (2386)

2000-11-29 14:07:29# 126. lþ. 34.3 fundur 212. mál: #A flutningur eldfimra efna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það kemur fram í svari hennar að í gildi er reglugerð en ég held að það sé deginum ljósara, þó ekki sé nema út frá umræðum sem hafa farið fram í þingsal, að sú reglugerð er ekki fullnægjandi. Hér hefur t.d. komið fram að própangas er flutt um Hvalfjarðargöng fyrir hádegi. Það er auðvitað ekki viðunandi, þar sem mjög greið leið er utan við göngin, að slíkt sé gert og engin reglugerð sem banni það. Það hefur komið fram að Vinnueftirlitið hefur látið í ljós áhyggjur af því að ekki séu í gildi nógu strangar reglur. Það hlýtur að liggja fyrir að endurskoða þarf þær reglur sem til eru.

Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar þrýst var á um byggingu hins gríðarlega mannvirkis sem Helguvíkurhöfn er var nauðsyn hafnargerðarinnar ekki síst rökstudd með því að þar yrði síðan landað öllu því bensíni og olíu sem notað yrði á Suðurnesjum og flugvellinum þar með. Þar með var talið að eldsneytisflutningar á Reykjanesbraut mundu leggjast af. En nú hafa liðið ár og dagur síðan Helguvíkurhöfn var gerð og enn hafa olíufélögin sem hlut eiga að máli ekki byggt upp aðstöðu fyrir olíulöndun þar. Áfram bruna bensín- og olíuflutningabílarnir eftir Reykjanesbrautinni og eykst sá flutningur með ári hverju. Ég sé ekki annan kost vænni í stöðunni en hæstv. ráðherra hreinlega banni þessa flutninga eftir Reykjanesbrautinni svo viðkomandi olíufélag sjái sig knúið til að byggja upp olíutanka við Helguvík.