Flutningur eldfimra efna

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:10:01 (2387)

2000-11-29 14:10:01# 126. lþ. 34.3 fundur 212. mál: #A flutningur eldfimra efna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa umræðu og þær ábendingar sem hér hafa komið fram. Ég er sammála þeim og deili áhyggjum þeirra vegna þess að við vitum að mjög alvarleg slys geta orðið þegar alvarleg efni eru flutt eftir þjóðvegum. Þó er rétt að ítreka að ástæða þess að ég minntist á að engar reglur væru í gildi sums staðar erlendis var til upplýsingar fyrir hv. þm. Það er að sjálfsögðu ekki til eftirbreytni fyrir Íslendinga svo að það komi skýrt fram.

Ég veit að ýmsir hv. þm. hafa mikinn áhuga á þessu máli og áhuga á að finna betri lausnir. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson hefur einmitt flutt tillögur í þessu efni. Eins og ég sagði áðan í svari mínu er þegar hafin endurskoðun á hluta þeirra reglna sem í gildi eru. Þótt mjög ítarlegar reglur séu í gildi þarf samt sem áður alltaf að athuga þróunina í þessum málum erlendis, auk þess að athuga þarf hvort aðstæður hafi breyst innan lands sem geri það að verkum að breyta þurfi reglum enn frekar.

Ég tók einnig fram að lögreglustjórinn í Reykjavík er að skoða sérstaklega umferð um Hvalfjarðargöngin og meta hvort þar eigi að setja strangari skilyrði. Ég sé ástæðu til að ganga eftir því að það komi sem fyrst og við fáum þessar tillögur á okkar borð. Við þurfum auðvitað að vera sammála um að grípa til breytinga, t.d. sveitarfélög og þeir aðilar sem stunda slíkan flutning. Auðvitað þarf að kalla alla þessa aðila til og skoða hvað hægt er að gera.