Endurskoðun laga um leigubifreiðar

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:12:43 (2388)

2000-11-29 14:12:43# 126. lþ. 34.4 fundur 234. mál: #A endurskoðun laga um leigubifreiðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. samgrh. varðandi leigubifreiðaakstur. Það kemur ekki til vegna þess að ég vilji afleggja þau lög sem í gildi eru eða taka upp þann hátt sem Svíar hafa nú haft um nokkurn tíma. Þeir breyttu lögum og gáfu leigubifreiðaakstur frjálsan. Það hefur leitt til margra vandamála, einkum og sér í lagi þannig að misindismenn hafa stundað leigubílaakstur. Þá hefur ekki verið hægt að rekja til leigubílastöðva hvaða bíll hafi farið að viðkomandi húsi eða í viðkomandi ferð. Ég tel að eitt af hinu góða á Íslandi sé að hægt er að fylgjast nákvæmlega með því hvenær hvaða bíll fór, í hvaða ferð og jafnvel með hvaða farþega.

Ég furða mig hins vegar á að þegar þetta mál er skoðað í heild sinni kemur í ljós að í fyrsta lagi höfum við lög um leigubifreiðar, nr. 61/1995, þá reglugerð um leigubifreiðar, nr. 224/1995, reglur um tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiða og síðan fjórðu reglugerðina, þ.e. um aldraða leigubílstjóra, sérstök regla sem gildir um þá.

Ég tel að það sé full ástæða, virðulegi forseti, til að gera gangskör í að gera þessi mál aðgengilegri. Í því sambandi vitna ég til fsp. minnar til hæstv. samgrh. og til nál. frá hv. samgn. á 123. löggjafarþingi. Í nál. samgn. semgir m.a., með leyfi forseta:

,,Jafnframt vill samgöngunefnd ítreka álit nefndarinnar frá 122. löggjafarþingi, þskj. 1137, 519. mál, um nauðsyn þess að heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar fari fram hið fyrsta.``

Þess vegna legg ég fram þessa fsp. til hæstv. samgrh.