Notendabúnaðardeild Landssíma Íslands

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:23:24 (2392)

2000-11-29 14:23:24# 126. lþ. 34.5 fundur 257. mál: #A notendabúnaðardeild Landssíma Íslands# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum samþykkti Alþingi lög um stofnun hlutafélagsins Pósts og síma. Það frv. sem síðan varð að lögum nr. 103/1996 kvað mjög skýrt á um að hlutafé í þessu fyrirtæki yrði ekki selt nema Alþingi samþykkti sölu á hlutafénu. Enn fremur var kveðið skýrt á um í þeim lögum að fyrirtækinu væri heimilt að stofna dótturfélög eða önnur félög um tiltekinn þátt reksturs fyrirtækisins sem yrði alfarið í eigu Landssímans. Þetta er mjög skýrt í lögunum og ekki hægt að misskilja. Til að mynda er ein af forsendum þess að sú leið var farin að einstakir stjórnendur Landssímans eða stjórn hans væru að taka ákvörðun um það hverjum ætti að sameinast og hverjum ekki því að Landssíminn og undanfari hans, Póstur og sími, hafði einkarétt á þessu sviði og hafði því byggt upp mjög öflugt fyrirtæki sem það er enn þann dag í dag.

Um síðustu áramót gerðist það, virðulegi forseti, að sameinuð var sala á þjónustu símkerfa og símbúnaðar við fyrirtæki sem var dótturfyrirtæki símans og heitir Grunnur -- Gagnalausnir. Það fyrirtæki var að hálfu í eigu Símans og að hálfu í eigu Opinna kerfa. Tekin var um það ákvörðun að svokölluð notendabúnaðardeild sem annast hefur sölu og þjónustu símkerfa og tengst búnaði til fyrirtækja var sameinuð þessu fyrirtæki og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef var velta þessa fyrirtækis um það bil 400--500 millj. á ári. Hér er því um verulega stórt fyrirtæki að ræða. Hlutafé í fyrirtækinu Grunnur -- Gagnalausnir var einfaldlega skipt upp eftir þetta þannig að Landssíminn á nú, eftir því sem ég best veit, 80% í fyrirtækinu en Opin kerfi 20%. Þetta fór fram án þess að nokkurt útboð færi fram eða annað enda var hugmynd löggjafans í upphafi sú að ekki kæmi til þess að meta þyrfti hver ætti að vera í samstarfi við Landssímann og hver ekki sökum þess að fyrirtækið var mjög sérstakt. Af þeim sökum, af því að lögin eru skýr, leyfi ég mér á þskj. 284 að beina þeim fyrirspurnum til ráðherra sem þar greinir.