Notendabúnaðardeild Landssíma Íslands

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:34:01 (2395)

2000-11-29 14:34:01# 126. lþ. 34.5 fundur 257. mál: #A notendabúnaðardeild Landssíma Íslands# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni, fyrir þá þörfu fyrirspurn sem hér kemur fram. En ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. samgrh. út í það að nýlega mátti lesa í fréttum á viðskiptasíðum að mikil kynning hefur staðið yfir í New York á vegum Kaupþings á ýmsum álitlegum fjárfestingarkostum á Íslandi og voru nefnd fyrirtæki eins og Össur hf., Íslensk erfðagreining, Marel og Landssíminn sem voru þar á kynningarborði fyrir erlendum fjárfestum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. samgrh.: Hefur verið tekin einhver ákvörðun um söluna frekar en það sem við alþingismenn höfum fengið að vita eða er kannski einhver bitasala fram undan á hluta Landssímans til erlendra fjárfesta? Er t.d. búið að undanskilja dreifikerfið? Er það farið frá eða hvað var eiginlega verið að kynna fyrir erlendum fjárfestum?

Við vitum að ágreiningur er í hæstv. ríkisstjórn um þetta og eiginlega spurning líka hvort framsóknarmenn (Forseti hringir.) hafi stutt og styðji slík söluáform og kynningu á erlendri grund á þeim álitlega fjárfestingarkosti sem Landssíminn er.