B-landamærastöðvar á Íslandi

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:54:00 (2402)

2000-11-29 14:54:00# 126. lþ. 34.6 fundur 256. mál: #A B-landamærastöðvar á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hef ég þá lesturinn þar sem frá var horfið.

Á fundinum boðaði framkvæmdastjórnin að hún íhugaði að leggja til við aðildarríki að öryggisaðgerðum yrði beitt á innflutning á sjávarafurðum frá Íslandi og Noregi þannig að allur innflutningur til aðildarríkjanna yrði að fara um landamærastöðvar ríkjanna og verða skoðaður að fullu. Rök framkvæmdastjórnarinnar voru þau að vegna óvissu um landamærastöðvar í Noregi og á Íslandi og framkvæmd EFTA-ríkjanna á eftirliti á stöðvunum væri þetta nauðsynlegt til að tryggja að neytendum aðildarríkja ESB bærust heilnæmar sjávarafurðir. Málinu var frestað og ákveðið að eftirlitsmenn framkvæmdastjórnarinnar mundu fara í eftirlitsferð með eftirlitsmönnum ESA til Íslands og Noregs í febrúar til að skoða landamærastöðvar í þessum ríkjum og framkvæmd eftirlits ríkjanna við innflutning á sjávarafurðum frá þriðju ríkjum.

Eftirlitsmenn ESA og framkvæmdastjórnar ESB gerðu alvarlegar athugasemdir við skipulag eftirlitsins á Íslandi og í Noregi. Í framhaldi af skýrslu þeirra var skoðunarstöðvum, B-stöðvum, lokað. Síðan þá hefur verið unnið að endurskipulagningu á eftirlitskerfinu. Jafnframt var ákveðið að breyta stöðu þeirra og opna aftur sem fullgildar landamærastöðvar. Er við það miðað að fyrstu þrjár stöðvarnar verði tilbúnar til úttektar eftirlitsmanna ESA og framkvæmdastjórnar ESB fyrir lok þessa árs og hinar á vormánuðum 2001.

Síðar er hugsanlegt að aðrar stöðvar bætist við. En áður en öll þessi málaferli hófust hafði ekki verið skoðunarstöð á Skagaströnd, fyrst hún hefur borist hér í tal. Að því er ég best veit hafði ekki borist beiðni um það fyrr en komið var í það óefni sem hér hefur verið lýst. Ég legg hins vegar áherslu á að við getum rekið hér sveigjanlegt kerfi til þess að bregðast við mismunandi aðstæðum sem skapast í sjávarútvegi okkar og að það verði gert á eins ódýran og hagkvæman hátt og mögulegt er.

Ég tel fullvíst að íslenskir embættismenn oftúlka ekki reglurnar. En ég hef stundum áhyggjur af því að Eftirlitsstofnun EFTA geri það og hugsi þá ekki alveg í samræmi við það sem tíðkast víðast hvar innan Evrópusambandsins.