Endurhæfingardeild á Kristnesspítala

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:56:02 (2403)

2000-11-29 14:56:02# 126. lþ. 34.7 fundur 258. mál: #A endurhæfingardeild á Kristnesspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Nú við gerð fjárlaga- og fjárhagsáætlana fyrir árið 2001 kemur í ljós að m.a. eru langir biðlistar vegna bæklunarlækninga á höfuðborgarsvæðinu og enn gríðarlegur fjárhagsvandi í heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir miklar lagfæringar á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum mínum gætu um 25--35 rúm verið upptekin á suðvesturhorninu vegna bæklunarlækninga sjúklinga að norðan og austan, þ.e. á upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Eins og kunnugt er rekur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri bæklunarlækningadeild og einnig endurhæfingardeild á Kristnesspítala ásamt öldrunardeild. Það vekur furðu að ekki skuli vera uppi áform um að létta á suðvesturhorninu með því að auka þjónustuna í Kristnesi. Hér er enn fremur um gríðarlegt byggðamál að tefla, en mikið er rætt um byggðamál í þingsölum einmitt nú um stundir. Þess vegna, virðulegi forseti, er ég með fyrirspurn í fjórum liðum til hæstv. heilbrrh.:

,,1. Hversu margir njóta endurhæfingar á Kristnesspítala árlega?``

Þá er átt við Kristnesspítala sem deild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

,,2. Hefur Kristnesspítali getað þjónað öllum þeim Norðlendingum og Austfirðingum sem óskað hafa eftir endurhæfingu þar?

3. Hversu margir Norðlendingar og Austfirðingar njóta endurhæfingar annars staðar en á Kristnesspítala árlega og þá hvar?

4. Eru áform uppi um að auka þjónustu Kristnesspítala þannig að unnt verði að þjóna þeim Norðlendingum og Austfirðingum sem á endurhæfingu þurfa að halda?``

Nú geri ég mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að í vissum tilvikum getur endurhæfing ekki átt sér stað á Kristnesspítala og er þá um að ræða hjartaaðgerðir. En hluti endurhæfingar gæti átt sér stað með tiltölulega litlum kostnaði við uppbyggingu á Kristnesspítala en þar er húsnæði fyrir hendi.