Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:08:00 (2407)

2000-11-29 15:08:00# 126. lþ. 35.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Samfylkingin styður að sveitarfélögin fái auknar tekjur, enda hafa þau með höndum afar mikilvæg og vaxandi verkefni. Samfylkingin styður einnig að fasteignaskattar verði lækkaðir á íbúðareigendur á landsbyggðinni. En Samfylkingin telur algjörlega óásættanlegt að sækja eigi stærstan hluta tekjuaukningar sveitarfélaganna í vasa launafólks með hreinni hækkun útsvars. Samfylkingin hefur flutt tillögur um að tekjuskattar ríkisins verði lækkaðir til jafns við auknar heimildir í útsvari, en fyrirliggjandi er neikvæð afstaða stjórnarliða til þeirra.

Í ljósi þessa mun Samfylkingin hvorki styðja megintillögu frv. né bera ábyrgð á að stórfelldum skattahækkunum verði velt yfir á almennt launafólk á sama tíma og ríkisstjórnin er að lækka skatta á söluhagnað stórra fjármagnseigenda. Pólitíska ábyrgð á þessari framkvæmd verður ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn á hinu háa Alþingi að bera einn.