Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:24:10 (2415)

2000-11-29 15:24:10# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. í gær spurði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mig nokkurra spurninga sem ég fór yfir í nótt og morgun.

Hv. þm. spyr hvort tekjustofnanefnd hafi í sínum athugunum skoðað áhrifin af frestun söluhagnaðar hlutabréfa á fjármál sveitarfélaganna. Svarið við þessu er að nefndin skoðaði ekki þau áhrif sérstaklega. Hins vegar hafði nefndin til umfjöllunar skýrslu starfshóps félmrh. frá í ágúst 1999 um fjárhagsleg áhrif ýmissa skattbreytinga á sveitarfélögin, þar með talin áhrifin af hlutabréfaafslættinum svokallaða og upptöku fjármagnstekjuskatts, en ekki var þar fjallað um áhrifin af frestun söluhagnaðar hlutabréfa. Segja má að tekjustofnanefndin hafi ekki verið að skoða sérstaklega áhrif einstakra þátta á fjárhag sveitarfélaganna þó að ýmis gögn hafi verið lögð fram í tengslum við umræðu í nefndinni. Nefndin safnaði gríðarlegum upplýsingum um afkomu sveitarfélaganna síðan 1990 og segja má að hún hafi byggt niðurstöðu sína á því. Þó ber að vísa í bókanir og fyrirvara einstakra nefndarmanna.

Í skýrslu nefndarinnar er bent á að halli á rekstri sveitarsjóðanna hafi verið viðvarandi síðan 1990. Hann var tæpir 3 milljarðar árið 1999 og stefnir í rúma 3 milljarða á þessu ári. Segja má að þau fjárhagsleg áhrif sem hv. þm. ræðir um og eru til lækkunar á tekjum sveitarfélaganna séu þar með komin í þær afkomutölur sem tekjustofnanefndin dregur fram. Afkoma sveitarfélaganna hefði væntanlega orðið betri á þeim árum sem áhrifanna gætir ef til umræddra skattalagabreytinga hefði ekki komið.

Tillögur nefndarinnar miða að því að tryggja sveitarfélögunum nægjanlega tekjustofna til að standa undir lögboðnum verkefnum. Í því skyni leggur nefndin til hækkun á útsvarsprósentu í áföngum um 0,99 prósentustig sem áætlað er að skili sveitarfélögunum 3,8 milljörðum miðað við fullnýtingu heimilda og til viðbótar sérstakt ríkisframlag í jöfnunarsjóð í tvö ár eða samtals 1,4 milljarðar.

Það er von manna að þessi breyting dugi sveitarfélögum almennt séð að teknu tilliti til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á verkefnum og tekjustofnum sveitarfélaganna til þess að bæta afkomu sína til frambúðar. Til viðbótar leggur síðan tekjustofnanefndin til að öll lagafrv. og stjórnvalds\-ákvarðanir sem hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin verði kostnaðarmetin þannig að ávallt liggi fyrir sem skýrust mynd af fjárhagslegum áhrifum slíkra breytingar. Það tekur einnig til breytinga sem kunna að verða gerðar á skattalögum. Félmrh. hefur þegar óskað eftir tilnefningum frá fjmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga í starfshóp sem koma á með tillögur um framkvæmd og fyrirkomulag slíks kostnaðarmats.

Þessum upplýsingum vildi ég koma á framfæri vegna ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í gær.