Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:47:46 (2420)

2000-11-29 15:47:46# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Sá munur er á þessari skýrslu og öðrum upplýsingum sem fyrir liggja að þessi skýrsla er til komin á grundvelli starfs sem unnið hefur verið í nefnd með fulltrúum allra aðila málsins. Þeir komu sér saman um þær forsendur sem bæri að taka tillit til þegar endurskoðunarfyrirtækið færi yfir málið. Það er sá mikli munur sem er á þessum upplýsingum og öðrum sem menn hafa rætt. Þarna komu aðilar sér saman um forsendurnar og á þeim forsendum lagði fyrirtækið mat á stöðuna. Þess vegna er þessi skýrsla í sérflokki þegar litið er á þær upplýsingar sem hafa borist og þær tölur sem menn hafa nefnt.

Varðandi það að kostnaður grunnskólans hafi aukist þá, eins og ég sagði, tel ég að það ekki hafa verið nægilega rökstutt. Menn hafa m.a. talið að þar hafi komið til úrskurðir menntmrn. varðandi kennsludaga. Þar hefur ekki verið í neinu vikið frá því sem segir í grunnskólalögunum en þau voru lögð til grundvallar þegar samkomulagið var gert. Sömu sögu er að segja þegar menn tala um valfrelsi í 9. og 10. bekk og nýjar námskrár sem gera ráð fyrir nýtingu þess tíma. Þau ákvæði er einnig að finna í grunnskólalögunum sem lágu til grundvallar þegar samkomulag við sveitarfélögin var gert. Þess vegna segi ég: Ég tel að það þurfi að rökstyðja það nánar en með vísan til þessara tveggja þátta, sem eru meginþættir í málflutningi sveitarfélaganna. Þeir þættir áttu ekki að koma þeim á óvart.