Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:53:22 (2422)

2000-11-29 15:53:22# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, enda búið að semja um að henni ljúki á vissum tíma. En vegna þess að ég var fjarstaddur vegna annarra starfa við umræðuna í gær vildi ég koma tveimur til þremur atriðum að til skýringar varðandi það sem rætt hefur verið um starf tekjustofnanefndar.

Tekjustofnanefndin tók tvær skýrslur til meðferðar um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þar var skýrsla unnin á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga og skýrsla unnin af starfshópi ráðuneyta og Sambands ísl. sveitarfélaga. Þær voru lagðar til grundvallar um þessi samskipti. Reynt var að leggja mat á hvaða áhrif lagabreytingar hefðu haft á tekjur sveitarfélaga og nefndar tölur í kringum 2 milljarða, þ.e. sveitarfélögunum í óhag. Það var ekki deilt um 1.300 millj. í þessu sambandi. Um afgang þess sem út af stóð á milli ríkis og sveitarfélaga var ekki fullt samkomulag.

Hins vegar er erfitt að komast að endanlegri niðurstöðu í þessu upp á krónur og aura. Áhrifin af þessu eru bæði plús og mínus. Það er nýbúið að samþykkja lög sem fela í sér hagsbætur fyrir sveitarfélögin, löggjöfina um fæðingarorlof. Þetta gengur þannig í báðar áttir. Nefndin einbeitti sér að því að greina hallarekstur sveitarfélaga, greina afkomu þeirra á síðasta áratug og komst að þeirri niðurstöðu að útlitið um afkomu þeirra á yfirstandandi ári væri í kringum 3 milljarða kr. Ég vildi að þetta kæmi fram um verkefni nefndarinnar.

Varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og samskipti sveitarfélaga í framtíðinni þá reyndum við að skila tillögum okkar þannig að setja þessi samskipti í ákveðnari farveg, meta áhrif löggjafar frá Alþingi á fjárhag sveitarfélaga, láta fylgja fjárhagslegt mat og koma samskiptum ríkis og sveitarfélaga í fast form miðað við hverja fjárlagagerð. Tillögur um þetta fylgdu niðurstöðum nefndarinnar. Einnig er þörf á að endurskoða þær reglur sem gilda um úthlutun úr jöfnunarsjóði. Það er rétt að hann er orðinn mjög stór sjóður og þar þarf að endurskoða ýmislegt.

Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu um þetta frekar að sinni. Það væri vissulega hægt en ég vildi koma þessum hlutum að til skýringar.