Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:57:28 (2424)

2000-11-29 15:57:28# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka fyrir þá vinnu sem fram fór í félmn. og umræður í Alþingi sem voru allviðamiklar í gærkvöldi og í gærdag.

Nú er að ljúka áfanga í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga en hins vegar er ljóst að hér er um viðvarandi verkefni að ræða.

Ég vísa því á bug að um sleifarlag hafi verið að ræða í tekjustofnanefndinni. Ég tel það ekki eiga við rök að styðjast. Farið var í mikla vinnu við að skoða tekjustofna í öðrum löndum, m.a. úti í Evrópu. Tekjustofnanefndin komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir allt værum við á Íslandi með hvað skásta kerfið í tekjustofnum sveitarfélaga. Tekjustofnanefndin komst að þeirri niðurstöðu sem birtist í þeim tillögum sem við erum að afgreiða í Alþingi í dag að hækka ætti útsvar, að ríkisvaldið mundi leggja 1,1 milljarð til að leiðrétta fasteignagjöld á landsbyggðinni, að framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga mundu, umfram það sem er í lögum, verða 1,4 milljarðar, að kostnaðarmeta skyldi öll lagafrv. og hafa aukið samráð á milli þessara stjórnsýslustiga.

Það sem eftir á að skoða er fækkun á undanþágum varðandi fasteignagjöldin. Það á að ræða frekar breytt verkaskipti á milli ríkis og sveitarfélaga og skoða jafnframt þjónustugjöld sveitarfélaga en þar er um nokkuð viðamikla vinnu að ræða.

Þetta voru niðurstöður nefndarinnar. Ég tel að þær tillögur sem við erum að afgreiða í dag séu mjög stór áfangi í því að lagfæra fjárhag sveitarfélaganna. Þar má kannski alltaf gera betur en þetta er stór áfangi.