Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 12:08:39 (2429)

2000-11-30 12:08:39# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu minni reyndi ég að rekja samspil ríkisfjármála og efnahagsmála almennt. Það er fullkomin samstaða um það milli stjórnarflokkanna að skila ríkissjóði með miklum afgangi og það er gert ráð fyrir því. Um það er ekkert deilt. Hins vegar tel ég og ræða mín sýnir að ég tel enga ástæðu til þess að draga fjöður yfir það að varanlegur viðskiptahalli er ekki af hinu góða. Ég hef ekki orðið var við að neinar deilur séu um það ef varanlegur viðskiptahalli skapast af vaxandi einkaneyslu. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni að það er skilsmunur á því hvort við söfnum erlendum skuldum og viðskiptahalla með vaxandi neyslu eða fjárfestingu.