Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 13:47:13 (2450)

2000-11-30 13:47:13# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hélt ræðu um efnahagslegt umhverfi, eins og ég gerði reyndar, og tengsl þess við ríkisfjármálin og varpaði til mín spurningum um hvort ekki þyrfti að draga meira saman í opinberum framkvæmdum. Við unnum að því í undirbúningi fjárlaganna að draga saman í opinberum framkvæmdum og hv. þm. þekkja þá umræðu. Ég hefði sagt að jafnvel hefði þurft að ganga heldur lengra í því. En hins vegar heyrðist mér ekki á talsmönnum Samfylkingarinnar að þeir væru mjög hrifnir af þeim hugmyndum sem þar komu fram. Hugmyndir þeirra voru að draga ekki úr opinberum framkvæmdum. Hv. formaður Samfylkingarinnar er kannski búinn að gleyma því.

Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort stefnan í ríkisfjármálum magnaði viðskiptahallann. Ef afgangur af ríkissjóði verður viðlíka og hann hefur verið á síðasta ári og útlit er fyrir að verði á næstu árum til ársins 2004, þá stefnir í að skuldir ríkissjóðs verði lægri en peningalegar eignir. Ef þetta er ekki til að leggja lóð á vogarskálina til að vinna m.a. gegn viðskiptahalla, þá fylgir hv. formaður Samfylkingarinnar annarri hagfræði en ég, en ég mun koma að því nánar í seinna andsvari mínu.