Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 13:52:37 (2453)

2000-11-30 13:52:37# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég minni hv. þm. Jón Kristjánsson á þá staðreynd að þær tillögur sem liggja fyrir af hálfu Samfylkingarinnar eru góðar, eins og hv. þm. sagði. Þar er um að ræða aukin framlög til mennta- og menningarmála, aukin framlög til byggðamála, aukin framlög til aldraðra og öryrkja og líka til barnafólks. Hér er um að ræða stefnu sem er ákaflega jákvæð í eðli sínu.

Felur hún í sér aukin útgjöld? Já, hún felur í sér aukin útgjöld. En Samfylkingin hefur eigi að síður lagt fram tillögur, þar sem ekki bara standast á útgjöld og tekjur, í anda þeirrar ábyrgu fjármálastefnu sem Samfylkingin beitir sér fyrir, sem munu auka afgang af ríkissjóði um 1 milljarð. Nauðsynlegt er að fram komi að tillögur Samfylkingarinnar leiða til þess, ef þær verða samþykktar að fullu, að ekki einasta kemur fram sú gagnsemd af þeim tillögum sem ég var að lýsa heldur mun afgangur af ríkissjóði aukast um 1 milljarð.

Að því er varðar orðræður okkar um viðskiptahallann, þá kemur það loksins fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að hann telur að það aðhald sem kemur fram í fjárlagafrv. og brtt. við það sé þáttur í því að sporna gegn viðskiptahallanum. En ég get ekki skilið þau orð öðruvísi en svo að það sé einungis þáttur en það dugir ekki. Er það rétt skilið hjá mér, herra forseti, að hv. þm. Jón Kristjánsson telji að það þurfi meira til að vinda ofan af viðskiptahallanum? Ég held nefnilega að það þurfi miklu meira. En hver er skoðun hv. þm. Jóns Kristjánssonar?