Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 13:54:23 (2454)

2000-11-30 13:54:23# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Áður en ég kemst til þess að ræða við hv. 10. þm. Reykv. um efnahagsmál, þá hlýt ég að spyrja hann nokkurra spurninga varðandi þær brtt. sem liggja fyrir. Hér liggja fyrir brtt. frá 1. minni hluta fjárln. upp á hækkun skatta upp á 3.850 millj. og hækkun gjalda síðan á sjávarútveginn upp á tæpar 3.000 millj. Það má enginn skilja orð mín þannig að ég sé sérstakur andstæðingur skatta, langt frá því. En í gær og nokkra daga áður höfum við rætt tekjustofna sveitarfélaga og ég heyrði ekki betur en Samfylkingin væri ákaflega mikið á móti því að hækka útsvörin um 0,33% tvisvar sinnum. Það var hið herfilegasta mál og mundi stefna öllum kjarasamningum í uppnám því við værum að svíkja verkalýðshreyfinguna. (Gripið fram í: Hvaða útúrsnúningar eru þetta?) Ég heyrði ekki betur en menn væru að mótmæla þessu og teldu rangt að hækka þannig útsvarið.

Ég verð að spyrja hv. þm.: Hvernig má það vera ef hægt er að hækka skatta um 4.000 millj., hvar standa þá kjarasamningarnir? Hvar standa þá þær viðmiðanir sem við höfum verið með við Alþýðusamband Íslands, hvar eru þær staddar? 4.000 millj. kr. skattahækkun. Hvar standa þá samningarnir? Ég hef alltaf haldið að þetta væri einn vefur, þetta héngi allt saman og við værum að fást við það vandamál í peningastjórninnin að á næsta ári tækist okkur að að verja kaupmáttinn í landinu. Ég hélt að það væri takmarkið.

Auk þess eru lagðar til tæpar 3.000 millj. kr. hækkun á sjávarútveginn. Ræðumaður gerði miklar athugasemdir og hafði miklar áhyggjur af stöðu gengisins. Hvernig heldur hv. þm. ræðumaður að staða gengisins væri við að bæta 3.000 millj. ofan á sjávarútveginn eins og þetta stendur núna?